„Útlendingum finnst þetta svolítið svakalegur völlur. Maður flýgur inn Djúpið, yfir bæinn í vinstri beygju sem maður er eiginlega stanslaust í þar til maður lendir. Þetta sjá menn hvergi annars staðar í heiminum,“ segir Jónas Jónasson, flugmaður hjá Icelandair, um aðkomuna að flugvellinum á Ísafirði. Í nýjustu uppfærslu tölvuleiksins Microsoft Flight Simulator er lögð áhersla á Norðurlönd og meðal annars geta flugþyrstir prófað að lenda og taka á loft á Ísafjarðarflugvelli sem er einstakur á heimsvísu.

Jónas þekkir það vel að fljúga á Ísafjörð en á Youtube er myndband af honum renna inn Djúpið og taka þessa margfrægu beygju í botni Skutulsfjarðar. Rúmlega 125 þúsund hafa séð hann lenda.

Flogið er á Cessna Grand Caravan í tölvuleiknum, en Jónas er á Dash 8 og var þar áður á Fokker 50, sem er töluvert erfiðara. Hann segir að völlurinn sé ekki alveg jafn erfiður og af er látið í sumum fjölmiðlum sem hafa fjallað um leikinn, en segir hann krefjandi, sérstaklega ef það blæs að suðaustan. „Við þjálfum alla okkar flugmenn sérstaklega í að fara á þennan flugvöll. Það mega ekki líða meira en þrjú ár á milli. Þetta er krefjandi en skemmtilegur völlur,“ segir hann.

Jónas Jónasson flugmaður.

Microsoft Flight Simulator er handhafi sjö heimsmeta en leikurinn kom fyrst út 1983. Nýjasta uppfærslan hefur fengið gríðarlega góða dóma í tölvuleikjablöðum og á vefsíðum, en uppfærslan kom á markað á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní.

„Ég hef heyrt að þetta sé frábær leikur og ég veit að þessi kynslóð sem er að læra núna að fljúga hefur verið að leika sér í þessum leik. Þetta er fínasta æfing og fólk getur öðlast meiri skilning á hlutunum,“ segir Jónas.