Lögreglan á Írlandi hefur enn á ný óskað eftir aðstoð í leitinni að Íslendingnum Jóni Þresti Jónssyni, sem síðast sást til á laugardagsmorgun á Írlandi. 

Í færslu, sem írska lögreglan birti á Facebook-síðu sinni fyrir stuttu, er birt ný mynd af Jóni og óskað eftir því að hver sem séð hefur til hans síðustu daga hafi samband við lögreglu.

Jón Þröstur sást síðast um klukkan 11 á laugar­dags­morgun í Whitehall í Dyflinni. Ekkert hefur spurst til hans síðan, en greint var frá því í gær að fjölskylda Jóns væri farin til Írlands. Hann er 41 árs og um 190 sentí­metrar á hæð og eru þeir sem telja sig hafa upp­ýsingar um Jón beðnir um að hafa sam­band við lög­regluna á Ír­landi, en Face­book-síðu hennar má sjá hér fyrir neðan.