Nokkur við­búnaður var á Kefla­víkur­flug­velli í nótt, en leigu­flug­vél tók þar á loft rétt fyrir klukkan fimm í morgun á leið til Grikk­lands. Tvær rútur biðu við vélina sem beið á vellinum og var önnur rútan þétt­setin lög­reglu­mönnum. RÚV greinir frá.

Þrjár rútur stóðu við Út­lendinga­stofnun rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Í tveimur þeirra sátu lög­reglu­menn í gulum vestum. Sú þriðja virtist mann­laus. Stuttu síðar óku rúturnar á brott.

Lög­reglu­maður sem frétta­stofa RÚV náði tali af á hóteli í Hafnar­firði, stað­festi að lög­reglu­gerð væri yfir­standandi. Hins vegar vildi hann þó ekkert segja um eðli að­gerðarinnar.

Tvær rútur héldu svo í átt til Kefla­víkur­flug­vallar.

Frétta­blaðið greindi frá því í gær­kvöldi að lög­regla hefði hand­tekið fimm manna íraska fjöl­skyldu sem vísa átti úr landi. Fjöl­skyldan var hand­tekin í gær og sett í gæslu­varð­hald, meðal annars tvær ungar konur þar sem þær voru á leið í skólann og fatlaður maður sem notast við hjóla­stól.

Aðal­með­ferð í máli þeirra um dvalar­leyfi er á­ætluð síðar í mánuðinum. Frá þessu greindi lög­maður fólksins, Claudia Ashani­e, í sam­tali við Frétta­blaðið í gær. Hún sagði brott­vísunina með gríðar­lega litlum fyrir­vara og komi þeim í opna skjöldu.

Fólkið hafi verið á Ís­landi í um það bil tvö ár, en þau eru frá Írak. Þau hafi verið á flótta í langan tíma og áður verið í Grikk­landi.

„Öll gögn benda til þess að þau bjuggu við ó­mann­úð­legar að­stæður í Grikk­landi,“ segir Claudia. Þar hafi þau fengið al­þjóð­lega vernd og dvalar­leyfi, en þrátt fyrir það bjuggu þau á götunni, og maðurinn sem glímir við fötlun var ekki með að­gang að heil­brigðis­þjónustu.

Síðan þau voru hand­tekin í dag segir hún að það hafi gengið erfið­lega að fá upp­lýsingar um stöðu þeirra hjá stjórn­völdum og erfitt að ná sam­bandi við þau. Og með því að hafa að­gerðirnar svona skömmu fyrir brott­vísun sé lítið sem lög­maður geti gert til að bregðast við.

Aðal­með­ferð í máli fólksins á að fara fram þann 18. nóvember, en Claudia óttast að ef þau verði komin til Grikk­lands verði ekki hægt að taka skýrslur af þeim. Auk þess muni tungu­mála­örðug­leikar bæta gráu ofan á svart, en fólkið þarf tví­túlkun til að koma skila­boðum sínum á fram­færi.

„Það eru litlar líkur á því að ég muni getað talað við þau aftur,“ segir Claudia.

Leiðrétting: Í fyrirsögn stóð að um íranska fjölskyldu væri að ræða. Hið rétta er að fjölskyldan er frá Írak og því írösk.

Sema Erla Serdar, for­maður Solaris, fylgdist með lög­reglu­að­gerðunum í gær­kvöldi, segir að­gerðina eina þá sví­virði­legustu sem hún hafi orðið vitni að.
Hún segist vera í á­falli eftir að hafa fylgst með að­gerð lög­reglu og birti mynd­bönd af að­gerðinni á Insta­gram síðu sinni. Hún hafi orðið vitni að mann­réttinda­broti í beinni út­sendingu.