Nokkur viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli í nótt, en leiguflugvél tók þar á loft rétt fyrir klukkan fimm í morgun á leið til Grikklands. Tvær rútur biðu við vélina sem beið á vellinum og var önnur rútan þéttsetin lögreglumönnum. RÚV greinir frá.
Þrjár rútur stóðu við Útlendingastofnun rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Í tveimur þeirra sátu lögreglumenn í gulum vestum. Sú þriðja virtist mannlaus. Stuttu síðar óku rúturnar á brott.
Lögreglumaður sem fréttastofa RÚV náði tali af á hóteli í Hafnarfirði, staðfesti að lögreglugerð væri yfirstandandi. Hins vegar vildi hann þó ekkert segja um eðli aðgerðarinnar.
Tvær rútur héldu svo í átt til Keflavíkurflugvallar.
Fréttablaðið greindi frá því í gærkvöldi að lögregla hefði handtekið fimm manna íraska fjölskyldu sem vísa átti úr landi. Fjölskyldan var handtekin í gær og sett í gæsluvarðhald, meðal annars tvær ungar konur þar sem þær voru á leið í skólann og fatlaður maður sem notast við hjólastól.
Aðalmeðferð í máli þeirra um dvalarleyfi er áætluð síðar í mánuðinum. Frá þessu greindi lögmaður fólksins, Claudia Ashanie, í samtali við Fréttablaðið í gær. Hún sagði brottvísunina með gríðarlega litlum fyrirvara og komi þeim í opna skjöldu.
Fólkið hafi verið á Íslandi í um það bil tvö ár, en þau eru frá Írak. Þau hafi verið á flótta í langan tíma og áður verið í Grikklandi.
„Öll gögn benda til þess að þau bjuggu við ómannúðlegar aðstæður í Grikklandi,“ segir Claudia. Þar hafi þau fengið alþjóðlega vernd og dvalarleyfi, en þrátt fyrir það bjuggu þau á götunni, og maðurinn sem glímir við fötlun var ekki með aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Síðan þau voru handtekin í dag segir hún að það hafi gengið erfiðlega að fá upplýsingar um stöðu þeirra hjá stjórnvöldum og erfitt að ná sambandi við þau. Og með því að hafa aðgerðirnar svona skömmu fyrir brottvísun sé lítið sem lögmaður geti gert til að bregðast við.
Aðalmeðferð í máli fólksins á að fara fram þann 18. nóvember, en Claudia óttast að ef þau verði komin til Grikklands verði ekki hægt að taka skýrslur af þeim. Auk þess muni tungumálaörðugleikar bæta gráu ofan á svart, en fólkið þarf tvítúlkun til að koma skilaboðum sínum á framfæri.
„Það eru litlar líkur á því að ég muni getað talað við þau aftur,“ segir Claudia.
Leiðrétting: Í fyrirsögn stóð að um íranska fjölskyldu væri að ræða. Hið rétta er að fjölskyldan er frá Írak og því írösk.
Sema Erla Serdar, formaður Solaris, fylgdist með lögregluaðgerðunum í gærkvöldi, segir aðgerðina eina þá svívirðilegustu sem hún hafi orðið vitni að.
Hún segist vera í áfalli eftir að hafa fylgst með aðgerð lögreglu og birti myndbönd af aðgerðinni á Instagram síðu sinni. Hún hafi orðið vitni að mannréttindabroti í beinni útsendingu.