Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, stendur við orð sín um að Landsnet sé ekki að uppfylla sínar skyldur um varaafl í Vestmannaeyjum.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, hafnaði því alfarið í Fréttablaðinu í dag að Landsnet uppfylli ekki kröfur sem gerðar séu til rafmagnsflutninga til Vestmannaeyja, skerðingar undanfarinna ára séu vegna truflana á kerfinu uppi á landi en ekki vegna bilana í sæstrengjunum til Eyja.

„Staðan í Vestmannaeyjum er ekkert frábrugðin því sem gerist á öðrum stöðum,“ sagði Guðmundur við Fréttablaðið. Hann sagði að meðaltali hafi verið skerðingar á hluta af forgangsrafmagni í Vestmannaeyjum í 3 klukkustundir á ári síðustu fimm árin. „Það er algjörlega sambærilegt við það sem gerist til dæmis á Neskaupstað. Skýringarnar á þessu straumleysi eru ekki að sæstrengirnir hafi verið að trufla heldur fyrst og fremst kerfið uppi á landi.“

Guðmundur sagði að ef Vestmanneyjastrengur 3 bili sé unnt að flytja 8 megavött með Vestmanneyjastreng 1 auk þess sem núverandi varastöðvar eru með 5,5 megavött. Ef svo ólíklega vildi til að þeir biluðu báðir á sama tíma væru til færanlegar stöðvar með tólf megavöttum hjá Landsneti.

Íris svarar orðum Guðmundar í færslu á Facebook.

„Það er vika síðan að hér var rafmagnsleysi í 5 klukkutíma og Landsnet gat ekki flutt til Eyja næga raforku til að halda rafmagni og hita á húsum og fyrirtækjum. Þegar flutningskefið á landi bilar þá flytur það ekki rafmagn til sæstrengsins,“ segir hún.

„Í Vestmanneyjum eru bara til staðar rúm 5 MW og þörfin fyrir forgangsorku er að lámarki 11 MW (reyndar meiri á loðnuvertíð).“

Hún segir þetta ekki ganga upp. „Dæmið gengur ekki upp! Það flytur engin færanlegar varaaflstöðvar milli landshluta í aftaka veðri á sjó og landi en það eru þær aðstæðurnar sem valda oftast rafmagnsleysi. Varaaflið þarf að vera á staðnum.“

Íris segir það ekki vera Landsneti til hróss að staðan í Vestmannaeyjum sé ekki verri en annarsstaðar.

„Ég stend því við þau orð að staða varaafls er óásættanleg í Vestmannaeyjum og Landsnet er ekki að uppfylla sínar skyldur.“