Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey hafi ákveðið að bjóða aftur fram lista í bæjarstjórnarkosningunum í vor og halda prófkjör þann 5. mars.

Þá hefur hún tekið ákvörðun um að gefa kost á sér aftur.

„Síðustu tæpu fjögur ár hafa verið annasöm og krefjandi, meðal annars vegna faraldurs og loðnubrests, en jafnframt hefur það verið ótrúlega gefandi og ögrandi að takast á við þessar áskoranir fyrir hönd okkar Eyjamanna,“ segir hún í færslu á Facebook.

„Ákaflega mörg og spennandi verkefni hafa verið sett af stað og eru í farvatninu hér í Eyjum, samfélaginu okkar til heilla, og ég vil gefa kost á mér til að vinna þeim áfram brautargengi.“