Landsréttur staðfesti í vikunni úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að framselja skyldi Íra, sem staddur er á Íslandi, til Írlands. Hann er grunaður um að hafa framið stunguárás í heimalandinu.

Í úrskurðinum kemur fram að atvikið sem málið varðar átti sér stað í íbúð þann 24. desember árið 2019. Hann er grunaður um að hafa ráðist með hnífi á annan mann og valdið honum áverkum.

Fram kemur að hann sé grunaður um tvö brot. Annars vegar fyrir líkamsárás og hins vegar fyrir að hafa notast við hlut sem getur valdið alvarlegum líkamlegum áverkum. Hvort brotið um sig getur varðað allt að fimm ára fangelsi.

Bæði hæstiréttur og héraðsdómstóll í Írlandi hafa sent handtökuskipanir til Íslands. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók manninn þann 8. nóvember á þessu ári og tók af honum skýrslu að viðstöddum verjanda og túlki. Síðan var hann úrskurðaður í farbann.

Segist hafa verið að verjast

Maðurinn neitar sök og vill meina að hann hafi verið að verja sjálfan sig gegn árás annars manns og að þeir hafi verið að rífast í aðdraganda atviksins.

„Áfengi hefði verið haft um hönd. Þá kvaðst varnaraðili ekki vita hvort hann var með  hnífinn í hendinni eða hvort hann greip til hnífs í þeim átökum sem urðu.“ segir í úrskurðinum.

Í framburði sínum tekur maðurinn fram að hann hafi átt við áfengisvandamál að stríða og verið um tíma óvinnufær af þeim ástæðum. Nú væri hann staddur á áfangaheimili í borginni og þar liði honum vel.

Hans áform væru að vera lengur hér á landi, koma sér í eigið húsnæði og leggja stund á vinnu. Þá væri vilji hans á fá ólögráða dóttur sína til landsins. Hann sagði að það yrði sér mjög þungbært yrði honum gert að yfirgefa landið og fara til Írlands.