Ríkisstjórn Írlands hefur ákveðið að krefja framleiðendur og innflytjendur áfengis um að setja viðvörunarmerkingar á áfengis­umbúðir. En slíkar viðvaranir hafa verið á tóbaksumbúðum um áratuga skeið.

Á meðal þess sem koma mun fram á miðunum verður að áfengi geti valdið lifrarkrabbameini, skorpulifur og öðrum sjúkdómum í lifur. Einnig eru sérstakar viðvaranir fyrir óléttar konur.

Írland er mjög stór framleiðandi áfengis á heimsmælikvarða þrátt fyrir að landið telji aðeins rúmar 5 milljónir íbúa. Þar eru framleiddir drykkir eins og Guinness bjór, Baileys líkjör og Jamesson viskí.

Ákvörðunin hefur hins vegar valdið meiri úlfúð utan landsteinanna en innan. Einkum frá stjórnvöldum í Róm en Ítalir hafa mótmælt kröftuglega og segja ákvörðunina atlögu gegn efnahag sínum. Fleiri vínframleiðslulönd, til dæmis Spánn, hafa einnig lagst gegn þessu en engu að síður fengu Írar engar mótbárur frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þegar þeir tilkynntu um áætlanir sínar í sumar. Kærufresturinn er nú liðinn og Írar geta sett merkingarnar á umbúðirnar.