Meiri­hluti Íra sam­þykkti á föstu­dag í þjóðar­at­kvæða­greiðslu að auka frelsi fólks til að ganga til skilnaðar. Um 82 prósent sam­þykktu að breyta á­kvæði stjórnar­skrárinnar. Allar breytingar á stjórnar­skránni í Ír­landi þarf að leggja fyrir þjóðar­at­kvæða­greiðslu.

Í nú­verandi stjórnar­skrá Íra segir að hjón verði að hafa slitið sam­vistum og verið að­skilin í að minnsta kosti fjögur af fimm árum áður en þeim verður veittur form­legur skilnaður.

Sam­kvæmt niður­stöðum at­kvæða­greiðslunnar verður á­kvæðið fjar­lægt úr stjórnar­skránni og þinginu leyft að á­kvarða hversu lengi hjón þurfa að hafa verið skilin að skiptum áður en þeim er veittur skilnaður. Segir í frétt breska ríkis­út­varpsins um málið að írska ríkis­stjórnin hafi gefið til kynna að tvö ár væri hæfi­legur tími.

Skilnaður var leiddur í lög í Ír­landi árið 1995 með að­eins 50,3 prósent meiri­hluta í at­kvæða­greiðslu. Tíðni skilnaða í Ír­landi er um 0,6 prósent á hverja þúsund, miðað við 1,9 prósent í Bret­landi og 3,2 í Banda­ríkjunum.