Michael Martin, forsætisráðherra Írlands, mætti á leiðtogafund NATO í vikunni og greindi frá því að Írland væri að endurskoða öryggis- og varnarmál sín í ljósi árásargirni Rússa. Enn væri landið þó hlutlaust.

Írland er ekki í NATO en hefur verið í góðum samskiptum við varnarbandalagið frá árinu 1999 í gegnum tvö samstarfsverkefni. Meðal annars hafa NATO-lönd séð um að aðstoða Íra við varnir á lofthelginni og Írar hafa sent hermenn til Kósóvó.

Fram að þessu hafa kannanir bent til þess að írska þjóðin væri andsnúin inngöngu í NATO og vildi frekar halda stöðu sinni sem hlutlaus þjóð. Innrás Rússa gæti þó hafa breytt þessu því nýleg könnun sýndi 48 prósent stuðning við inngöngu en 39 prósent andstöðu.

Martin ræddi meðal annars við Joe Biden, Emmanuel Macron, Boris Johnson, Justin Trudeau og Katrínu Jakobsdóttur á fundinum.

„Þetta er ný tegund af stríði,“ sagði Martin og vísaði til þess að Rússar væru að nota matvæli, orku og flóttamenn sem vopn. Ítrekaði hann að vesturveldin yrðu að vera samstíga varðandi stuðning við Úkraínu.