Íranar hafa tilkynnt að þeir muni veita eftirlitsmönnum á vegum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) aðgang að vöktunarbúnaði í kjarnorkuverum sínum á ný. Var þetta tilkynnt í dag en Íranar byrjuðu að takmarka aðgang sérfræðinga IAEA að kjarnorkuverum sínum í febrúar.

Framkvæmdastjóri IAEA, Rafael Grossi, fór til Teheran til viðræðna við írönsk stjórnvöld í dag. Hann ræddi þar við Múhameð Eslami, nýjan forstjóra írönsku Kjarnorkustofnunarinnar, sem var skipaður af Ebrahim Raisi Íransforseta í ágúst.

Fáeinum dögum fyrir fund Grossi og Eslami hafði IAEA deilt tveimur skýrslum með fjölmiðlum þar sem stofnunin lýsti yfir áhyggjum af kjarnorkuáætlun Írana. Var þar tekið fram að Íranar hefðu ekki verið samvinnuþýðir IAEA á meðan þeir héldu áfram auðgun á úrani.

Ákvörðun Írana um að veita eftirlitsmönnum aðgang að vöktunarbúnaðinum dregur úr líkum á því að Evrópuríkin og Bandaríkin bóki vítur á hendur Íran á næsta fundi framkvæmdastjórnar Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Slíkt hefði haft neikvæð áhrif á tilraunir til að endurvekja kjarnorkusamkomulag vesturveldanna við Íran.

Maður gengur fram hjá myndum af Raisi í Tehran höfuðborg Írans.
Fréttablaðið/AFP