Aðal­stjórn Í­þrótta­fé­lags Reykja­víkur sam­þykkti á fundi sínum þann 6. febrúar síðast­liðnum að fela lög­manni sínum að leggja fram kæru á hendur fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóra fé­lagsins. Er það vegna ætlaðrar mis­notkunar á reikningum og fjár­munum fé­lagsins, að því er segir í til­kynningu á vef­síðu fé­lagsins.

Áður hefur Ingi­gerður Guð­munds­dóttir, for­maður aðal­stjórnar ÍR sagt að málið sé mann­legur harm­leikur. Í yfir­lýsingu fé­lagsins kemur fram að meintur fjár­dráttur fram­kvæmda­stjórans nemi rúmum tíu milljónum króna.

Í til­kynningu fé­lagsins kemur fram að haldinn hafi verið fundur með þá­verandi fram­kvæmda­stjóranum þann 15. nóvember, þegar grunur lék á um að maðkur væri í mysunni. Hann lét þá þegar af störfum, án upp­sagnar­frests og frekari réttar til launa. Auk þess var hann sviptur að­gengi að reikningum og bók­haldi fé­lagsins.

Ó­út­skýrðar milli­færslur á lengra tíma­bili

Í yfir­lýsingunni kemur jafn­framt fram að það hafi komið í ljós við nánari yfir­ferð stjórnar yfir reikninga fé­lagsins að fram­kvæmda­stjóri hafði á starfs­tíma sínum frá 1. októ­ber 2018 til 15. nóvember 2019 tekið út rúmar sex milljónir króna af fjár­munum fé­lagsins. Hann hafi greitt þær til baka í nóvember, desember og janúar.

Hins vegar hafi yfir­ferð stjórnar­manna ÍR yfir fjár­reiður og með­ferð reikninga leitt í ljóst að fram­kvæmda­stjórinn virðist einnig hafa notað reikninga fé­lagsins í eigin þágu, í öðrum trúnaðar­störfum fyrir fé­lagð. Þetta hafi verið tíma­bilið 2014 til 2019.

Leitað hafi verið skýringa á þessum milli­færslum, sem nema röskum tíu milljónum króna. Verður það hlut­verk lög­reglu að meta hvort á­stæða sé til frekari að­gerða vegna þessa.

„Aðal­stjórn mun einnig á­fram vinna í því að fá skýringar á greiðslum sem fóru af reikningum fé­lagsins eða ein­stakra deilda til fyrrum fram­kvæmda­stjóra og krefjast endur­greiðslu á þeim fjár­munum sem áttu að renna til ÍR. Aðal­stjórn á engan annan kost en að vísa fram­haldi þessa máls að öðru leyti til til þess bærra yfir­valda. Þá mun aðal­stjórn leita leiða til að koma í veg fyrir að slíkt endur­taki sig.“