Ríkissaksóknari í Namibíu lagði fram ósk um aðstoð Interpol við leit á þremur Íslendingum í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum í hæstarétti í Winhoek höfuðborg Namibíu í vikunni.

RÚV greinir frá.

Þeir sem leitað er að eru Ingvar Júlíusson, Egill Helgi Árnason og Aðalsteinn Helgason. Saksóknari hefur óskað eftir því að þeir beri vitni um ákveðin atriði rannsóknarinnar en ákæra var gefin út á hendur mönnunum í fyrra.

Ásamt því var send framsalsbeiðni til íslenskra stjórnvalda en henni var hafnað þar sem ekki tíðkast að íslensk stjórnvöld framselji íslenska ríkisborgara.

Samkvæmt vef RÚV segir saksóknari að yfirvöld í Namibíu hafi meira en næg sönnunargögn til að réttlæta aðkomu Interpol að leitinni að mönnunum þremur.

Þá séu mennirnir þrír að gera allt til að reyna afmá spor sín og sannanir og að engir íslenskir starfsmenn Samherja séu lengur í landinu.

Þá segir einnig á vef RÚV að mennirnir þrír hafi farið fram á að fá að bera vitni að utan til að þurfa ekki að fara til Namibíu en saksóknari sé bjartsýnn á að þeir verði færðir þangað.