Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tjáði sig um innrás Rússa í Úkraínu á Facebook-síðu sinni rétt í þessu. Þar segir hann fréttirnar frá Úkraínu bæði ótrúlegar og ógnvænlegar og segir afstöðu Íslendinga skýra, að við eigim að standa með ráðamönnum og almenningi í Úkraínu og víðar.

„Ógnvænleg og ótrúleg ótíðindi bárust frá Úkraínu í nótt sem leið. Innrás hófst í landið, frá Rússlandi, Belarús og Krímskaga sem rússnesk stjórnvöld innlimuðu með valdi fyrir átta árum. Víða um heim er árásin fordæmd. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa talað skýrum rómi fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Skýr afstaða Alþingis liggur líka fyrir.“ segir í færslu Guðna, sem tekur fram að mikilvægt sé að lönd missi ekki fullveldi sitt við það eitt að eiga landamæri að vitlausu landi.

„Við Íslendingar erum smáþjóð í hörðum heimi. Við viljum að alþjóðalög séu virt, að stórveldi brjóti ekki nágranna undir sig. Í dag er einn þjóðhátíðardaga Eistlendinga, vina okkar við Eystrasalt. Þennan dag árið 1918 lýstu þeir yfir sjálfstæði. Í febrúar 1991 fyrir rúmum 30 árum ítrekaði Alþingi viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Litháens. Eistland, Lettland og Litháen endurheimtu sjálfstæði sitt og frelsi árið 1991, sama ár og Úkraína varð sjálfstætt ríki – sjálfstætt og fullvalda ríki eins og það er enn í dag og á að vera. Við eigum að sjálfsögðu að standa með ráðamönnum og almenningi í Úkraínu, í Eystrasaltslöndum og víðar á þeim slóðum. Við megum líka horfa til Finna, vinaþjóðar okkar. Sjálfstæði og fullveldi ríkja má ekki skerðast við það að þau eigi landamæri að hernaðarveldi.“

Þá fer Guðni yfir málið út frá sjónarhorni Rússa. Hann segist viss um að almenningur þar hljóti að vilja frelsi, mannréttindi og lýðræði. Guðni tekur fram að hann hafi mikið dálæti á Rússlandi, en hann segir að innrás í annað ríki megi aldrei líða.

„Aldnir Rússar þekkja stríð af eigin raun. Ég trúi því að allur almenningur þar eystra vilji frið og frelsi, mannréttindi og lýðræði. Í áranna rás hafa Íslendingar notið farsælla viðskipta við stjórnvöld í Moskvu og sjálfur á ég Rússa að vinum, naut þess á sínum tíma að læra rússnesku um skeið. Ég dáist að mörgu í rússneskri menningu, dáist að þeirri seiglu sem einkennir rússneska þjóð. En innrás í annað ríki má aldrei líða.“