Guðrún Aspelund, sóttvarnarlæknir, segir fjölgun innlagna vegna Covid-19 sjúkdómsins vera eina ástæðu fyrir því að sóttvarnarlæknir og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hvetja til frekari bólusetningar.
„Ástæðan fyrir því að við fórum af stað með þetta er sú að þátttakan mætti auðvitað vera betri en einnig vegna þess að við sáum aukningu á innlögnum núna, sérstaklega í nóvember,“ segir Guðrún í samtali við Fréttablaðið.
„Það hefur verið línuleg aukning. Það voru kannski fimm til átta í byrjun mánaðar en núna eru búnir að vera 25,“ segir Guðrún.
„Við vitum það að það er ekki skylda að fara í sýnatöku svo þær tölur eru ekki alveg eins marktækar eins og þær voru, þannig að þær gefa okkur ekki alveg rétta mynd en innlagningarnar eru alveg staðreynd,“ segir Guðrún.
Smit enn dreifð um samfélagið
Hún segir smitin enn vera dreifð víða um samfélagið. En um 30 prósent þeirra sem mæta í sýnatöku greinast með sjúkdóminn.
„Þetta gefur til kynna að það sé töluvert meira um smit ef svona hátt hlutfall er að greinast í sýnatöku.“
Hún segir daglega greinast um 30 manns. „Það rokkar svolítið mikið. Dettur til dæmis niður um helgar, það hefur alltaf gert það,“ segir Guðrún.
Hún segir mætingu í bólusetningu ekki hafa verið lélega en þau leggja helst áherslu á að fólk sem er 60 ára og eldri og þau sem eru með ónæmisbælandi sjúkdóma eða aðra áhættuþætti auk barnshafandi kvenna og heilbrigðisstarfsfólks mæti í örvunarbólusetningu.
„Það mætti vera betri þátttaka hjá 60-69 ára, það er um 50 prósent sem eru bólusett í þeim hópi,“ segir hún og bætir við „60 til 69 ára er fólk sem er enn í vinnu og á ferðinni og við viljum bæta þátttökuna þar sérstaklega.“