Ó­kyrrð í há­loftunum, um­fangs­mikill gagna­vers­þjófnaður, sóða­tal kjörinna full­trúa og bragga­blús er meðal þess sem var hvað mest í deiglunni á árinu sem er nú að renna sitt skeið. Frétta­blaðið hefur tekið saman helstu frétta­mál ársins hér innan land­steinanna. Vakin er at­hygli á því að saman­tektin endur­speglar að­eins nokkur af þeim stóru málum sem voru í um­ræðunni og er fjarri því að vera tæmandi. 

Sunna Elvira og Sigurður 

Það var um miðjan janúar í byrjun árs þegar Frétta­blaðið greindi frá því að Sunna Elvira Þor­kels­dóttir, þrí­tugur lög­fræðingur, hefði fallið milli hæða, um fjóra metra, á heimili sínu á Malaga á Spáni. Þjóðin fylgdist grannt með hennar málum og þá­verandi eigin­manns hennar, Sigurðar Kristins­sonar. Böndin bárust fljót­lega að Sigurði í tengslum við svo­kallað Skák­sam­bands­mál, sem snerist um stór­felldan fíkni­efna­flutning til Ís­lands. 

Sigurður var úr­skurðaður í varð­hald á Spáni en Sunna lögð inn á spítala. Frétta­blaðið ræddi við Sunnu skömmu eftir slysið en hún lýsti þar tauga­á­fallinu sem hún fékk eftir inn­lögnina á spítalann. Sunna kom ekki til landsins fyrr en í apríl en hún og Sigurður höfðu verið úr­skurðuð í far­bann vegna málsins. 

Sigurður var tví­vegis á­kærður á árinu, annars vegar fyrir aðild í Skák­sam­bands­málinu, og hins vegar vegna skatta­laga­brota í gegnum fyrir­tækið SS verk. Skatt­svikin voru sögð nema 105 milljónum króna. Héraðs­dómur Reykja­ness dæmdi Sigurð í 20 mánaða skil­orðs­bundið fangelsi og til greiðslu 137 milljóna króna í sekt. Aðal­með­ferð í Skák­sam­bands­málinu fer fram snemma í janúar á nýju ári. 

Sigurður og Sunna Elvira slitu sam­vistum eftir allt sem á hafði gengið. Í við­tali í nóvember sagðist Sunna, sem er lömuð fyrir neðan brjóst, stefna að því að verða besta út­gáfan af sjálfri sér. 

Sex­tán ár fyrir hrotta­fengið morð á Haga­mel 

Í apríl dæmdi Héraðs­dómur Reykja­víkur Khaled Cairo, 39 ára Jemena, í sex­tán ára fangelsi fyrir morðið á Sanitu Brauna, 44 ára konu frá Lett­landi, í íbúð þar sem hún bjó á Haga­mel í septem­ber í fyrra. Frétta­blaðið fylgdist með aðal­með­ferð málsins og greindi frá. Þar komu ná­grannar og lög­reglu­menn fyrir dóminn. Einn lög­reglu­maðurinn lýsti að­komunni sem skelfi­legri. Þar hafi Cairo staðið al­blóðugur „eins og módel“. Hann hafi hlegið þegar hann sá myndir af líki Sanitu við skýrslu­töku eftir hand­tökuna. 

Ná­granni Sanitu lýsti því fyrir dómi hvernig Cairo gekk hrotta­lega í skrokk á henni með af­leiðingunum vo­veif­legu. Fyrir dómi var spiluð upp­taka úr sím­tali ná­grannans við Neyðar­línuna en þar mátti heyra Sanitu öskra eftir hjálp. Cairo snög­greiddist við dóms­upp­söguna og greindi verjandi hans síðar frá því að hann hygðist á­frýja niður­stöðunni til Lands­réttar. 

Fjöl­skyldu­harm­leikur að Gýgjar­hóli 

„Vett­vangurinn benti ein­dregið til þess að þarna hefði ég átt hlut að máli,“ sagði Valur Lýðs­son, bóndi að Gýgjar­hóli II í Biskups­tungum, þegar aðal­með­ferð fór fram yfir honum í lok ágúst. Valur var á­kærður og síðar dæmdur fyrir morðið á bróður sínum, Ragnari Lýðs­syni, á Gýgjar­hóli II að kvöldi föstu­dagsins langa. 

Valur lýsti við aðal­með­ferðina því sem hann rak minni til um kvöldið. Hann hafi þar rætt fram­tíðar­á­form bæjarins við Ragnar og bróður þeirra Örn. Bræðurnir voru gest­komandi að heimili Vals. Valur sagði að hann og Ragnar hefðu drukkið um kvöldið og hinn síðar­nefndi brugðist ó­kvæða við þegar þeir hófu að ræða hug­myndina að færa bæjar­stæðið og koma upp kalda­vatns­veitu. Um morguninn hafi hann vaknað og komið að líki Ragnars. Valur var dæmdur til sjö ára fangelsis­vistar. 

Dagur Hoe Sigur­jóns­son, 25 ára, var í júní dæmdur í sau­tján ára fangelsi fyrir að hafa ráðið hinum albanska Klevis Sula bana á Austur­velli í desember í fyrra. Dagur réðst einnig á Elio Hasani, fé­laga Klevis, og veitti honum nokkur stungu­sár. Elio komst lífs af og var út­skrifaður af spítala nokkrum dögum eftir á­rásina. 

Við aðal­með­ferð málsins kom fram að Dagur hafi verið í upp­námi um­rætt kvöld, eftir rifrildi við kærustu sína. Hann hafi endur­upp­lifað árás sem hann varð áður fyrir þegar brota­þolar gengu upp að honum á Austur­velli, þar sem hann sat til að reyna að ná áttum. Við það hafi hann ráðist á þá. Í slags­málunum hafi hann gripið til hnífs sem hann hafði með­ferðis, með fyrr­greindum af­leiðingum. 

Guð­mundar- og Geir­finns­mál leidd til lykta

Það var í lok septem­ber sem um­talaðasta og um­deildasta saka­mál Ís­lands­sögunnar var leitt til lykta, nærri fjöru­tíu árum eftir að Hæsti­réttur kvað upp upp­runa­lega dóm sinn. Sak­borningarnir fimm í Guð­mundar- og Geir­finns­málum voru sýknaðir, fimm árum eftir að starfs­hópur Ögmundar Jónas­sonar, þá­verandi innan­ríkis­ráð­herra, komst að þeirri niður­stöðu að játningar þeirra Sæ­vars Marinós Ciesi­elski, Kristjáns Viðars Viðars­sonar, Tryggva Rúnars Leifs­sonar, Guð­jóns Skarp­héðins­sonar og Alberts Klahns Skafta­sonar væru ó­mark­tækar. 

Sindri stelur senunni 

Þjóðin fylgdist grannt með málum Sindra Þórs Stefáns­sonar, ferða­lögum hans og ævin­týrum. Sindri Þór var hand­tekinn snemma á árinu, grunaður um aðild að um­fangs­miklum þjófnaði á 600 tölvum í gagna­verum Advania á Reykja­nesi. Var hann vistaður í varð­hald í fangelsið Hólms­heiði en síðar að Sogni. Þegar á Sogn var komið strauk Sindri úr fangelsinu, sem er opið, og flúði land. 

Deilt var um það hvort Sindri hafi verið frjáls ferða sinna eða ekki en gæslu­varð­halds­úr­skurður hafði þá runnið úr gildi. Sindri fór í flug til Sví­þjóðar, meðal annars með for­sætis­ráð­herra. Frétta­blaðið birti fyrst yfir­lýsingu Sindra sem sagðist ætla að koma heim fljót­lega. Hann var hand­tekinn í Amsterdam tveimur dögum síðar. Á­kæra var gefin út í gagna­vers­málinu svo­kallaða í lok ágúst á hendur Sindra og sex öðrum. Sindri var í far­banni fram í októ­ber en hann reiddi fram 2,5 milljónir í tryggingu til að losna úr því og flaug til Spánar með fjöl­skyldu sinni. 

Aðal­með­ferð yfir Sindra og sex­menningunum fór fram í byrjun desember og er enn beðið eftir niður­stöðu í málinu. Sindri og verjandi hans hafa gagn­rýnt að­ferðir lög­reglu vegna málsins. Hafa þeir gefið lög­reglu það að hafa haldið aftur gögnum málsins og segja hana hafa „svifist einskis“ við öflun upp­lýsinga. 

Ljós­mæður í hart 

Kjara­deila ljós­mæðra og ríkisins var tölu­vert í deiglunni í vor og sumar. Deilan rataði inn á borð ríkis­sátta­semjara í febrúar en þá höfðu ljós­mæður verið samnings­lausar síðan í ágúst. Fundir samninga­nefndanna töldu á annan tug og felldi Ljós­mæðra­fé­lag Ís­lands fyrri til­lögu sátta­semjara í at­kvæða­greiðslu í byrjun júní. Hins vegar sam­þykkti fé­lagið miðlunar­til­lögu sem sett var fram í júlí. 

Allt í frosti hjá Sigur Rós

Frétta­blaðið greindi frá því í mars að eignir þeirra Jóns Þórs Birgis­sonar, oftast nefndur Jónsi, Georgs Holm og Orra Páls Dýra­sonar, með­lima Sigur Rósar, hefðu verið kyrr­settar að kröfu toll­stjóra. Um var að ræða kyrr­setningu eigna að verð­mæti um 800 milljóna króna. 

Undir hana féllu kyrr­setningar á fast­eignum, öku­tækjum, banka­reikningum og hluta­fé í fyrir­tækjum. Hæsta krafan var á hendur söngvara sveitarinnar, Jónsa líkt og hann er jafnan kallaður, en hún nam 638 milljónum króna. Í yfir­lýsingu sem sveitin sendi frá sér sögðust með­limir hennar ekki hafa neitt að fela. Um væri að ræða brest hjá endur­skoðanda sem starfaði fyrir þá. 

„Við munum greiða þetta til baka og finna út hvað það var sem fór úr­skeiðis. Við treystum þarna endur­skoðanda okkar og töldum að allt væri í góðu, þegar það reyndist svo þver­öfugt. Við viljum hafa allt klárt og uppi á borðum. Þetta eru engin Panama-skjöl eða neitt slíkt. Við borgum okkar skatt eins og aðrir og þetta er allt í far­vegi,“ sagði Georg Holm, bassa­leikari sveitarinnar í mars. 

Þá fækkaði með­limum sveitarinnar um einn í byrjun októ­ber þegar trommu­leikarinn Orri Páll sagði skilið við Sigur Rós eftir á­sökun um nauðgun. Banda­ríska lista­konan Meagan Boyd steig opin­ber­lega fram í septem­ber og sagði Orra hafa brotið á sér fyrir fimm árum þegar sveitin var stödd í Los Angeles við upp­tökur á plötunni Kveik. 

„Vegna um­­fangs þessa máls hef ég á­­kveðið að hætta í Sigur Rós. Sú á­­kvörðun er mér þung­bær, en ég get ekki látið þessar al­var­­legu á­sakanir hafa á­hrif á hljóm­sveitina og það mikil­­væga og fal­­lega starf sem þar hefur verið unnið síðustu ár. Starf sem er mér svo kært,“ skrifaði Orri í færslu á Face­book þar sem hann greindi fyrst frá. 

Út­tekt í Orku­veitunni 

Ó­hætt er að segja að mikil ólga hafi verið meðal starfs­manna Orku­veitu Reykja­víkur (OR) í sumar. Innri endur­skoðun Reykja­víkur­borgar fram­kvæmdi út­tekt á vinnu­staða­menningu þar eftir að þrír starfandi stjórn­endur voru sakaðir um kyn­ferðis­lega á­reitni í starfi eða fyrir kyn­ferðis­brot áður en störf hófust. 

Málið hófst með upp­sögn Bjarna Más Júlíus­sonar, fram­kvæmda­stjóra hjá Orku náttúrunnar, dóttur­fé­lagi OR, en honum var sagt upp vegna ó­við­eig­andi hegðunar í garð sam­starfs­kvenna sinna. Þeirra á meðal var Ás­laug Thelma Einars­dóttir, sem einnig var sagt upp störfum um svipað leyti. Ás­laug lýsti reynslu sinni í færslu á Face­book, en hún og Einar Bárðar­son, eigin­maður hennar, vönduðu Bjarna Bjarna­syni, for­stjóra OR, ekki kveðjurnar. 

Um leið og til­kynnt var að út­tekt yrði gerð á málum OR var greint frá því að Bjarni færi í tíma­bundið leyfi frá for­stjóra­störfum. Helga Jóns­dóttir tók við í hans stað og var niður­staða út­tektarinnar kynnt í nóvember. Þar kom meðal annars fram að upp­sagnir bæði Ás­laugar og Bjarna Más hefðu verið rétt­mætar en betur hefði mátt standa að þeim. Þar kom einnig fram að vinnu­staða­menning og starfs­á­nægja væri betri en al­mennt gerist á vinnu­markaði hér á landi. 

Ó­kyrrð í há­loftunum 

Flug­fé­lögin voru í kast­ljósi fjöl­miðlanna lungann af árinu. Ein stærstu tíðindin hjá Icelandair voru vafa­laust þau að Björg­ólfur Jóhanns­son, for­stjóri fé­lagsins til tíu ára, lét af störfum. Á­kvörðunina til­kynnti hann eftir að fé­lagið hafði lækkað af­komu­spá sína tvo mánuði í röð. 

„Ég er stoltur af því sem hefur á­orkast undan­farin ár og þakk­látur fyrir að hafa fengið að vinna með frá­bæru fólki. Fram­tíð Icelandair Group er að mínu mati björt; fé­lagið er fjár­hags­lega sterkt, með fram­úr­skarandi starfs­fólk og með góða stöðu á mörkuðum. Ég þakka sam­starfs­fólki og stjórn fyrir frá­bært sam­starf sem aldrei hefur borið skugga á,“ sagði Björg­ólfur við starfs­flokin. 

Sam­hliða til­kynningunni var sagt frá því að Bogi Nils Boga­son, þá­verandi fjár­mála­stjóri fé­lagsins, tæki við starfi for­stjóra tíma­bundið á meðan unnið yrði að ráðningu á eftir­manni Björg­ólfs. Ráðningin tíma­bundna varð þó föst nú í byrjun desember þegar fé­lagið á­kvað að Bogi Nils yrði eftir­maður Björg­ólfs. 

Fé­lagið gaf út lækkun af­komu­spá hinn 8. júlí. Þar kom fram að lækkunin næmi allt að 70 milljónum Banda­ríkja­dala, 37 prósent. Fé­lagið til­kynnti síðan síðari lækkun af­komu­spárinnar sam­hliða af­sögn Björg­ólfs. Sama dag hríð­féll fé­lagið í Kaup­höll Ís­lands, um rúm­lega 17 prósent. 

Þrátt fyrir raunir Icelandair um mið­bik árs verður ekki minnst á ís­lensku flug­fé­lögin án þess að rekja þrauta­göngu WOW air og Skúla Mogen­sen, for­stjóra fé­lagsins, á liðnu ári. Segja má að at­burða­rásin hafi byrjað með skulda­bréfa­út­boði flug­fé­lagsins sem lauk um miðjan septem­ber. Þar tryggði fé­lagið sér fjár­mögnun sem nam um 60 milljónum evra. 

Hinn 5. nóvember var síðan greint frá því að Icelandair hefði gert kaup­samning um kaup á öllu hluta­fé í WOW air. Boðað var til hlut­hafa­fundar þar sem taka átti af­stöðu til kaup­samningsins. Þriðju­daginn 27. nóvember sendi Skúli tölvu­póst á starfs­menn fé­lagsins þar sem hann fór yfir stöðuna. Þar greindi hann frá því að hann hafi sjálfur fjár­fest fyrir 5,5 milljónir evra, þá á jafn­virði ríf­lega 770 milljóna króna, í eigin fé­lagi. Í póstinum bætti hann við að nokkrir hefðu sýnt fé­laginu á­huga, meðal annars aðrir fjár­festar en Icelandair. 

Á­kvörðunin að greina frá slíku þótti um­deild en tveimur dögum síðar var gáfu fé­lögin það út að Icelandair hefði fallið frá kaupunum. Skúli kvaðst bjart­sýnn á stöðuna en sama dag greindi fé­lagið frá því að Indigo Partners, undir for­ystu flug­mógúlsins Bill Franke, hygðist fjár­festa í WOW. 

Indigo er aðal­­fjár­­fest­ir­inn í Tiger Airwa­ys sem er með bæki­stöðvar í Singa­por­e, og Spi­­rit Air­lines, sem er stað­sett í Flórída. Það er einnig stór fjár­­fest­ir í Wizz Air Hold­ings, Plc, Fronti­er Air­lines, Volar­is Air­lines og JetS­MART. 

Sjálfur lagði Franke leið sína til Ís­lands til fundar við Skúla og stjórn­endur WOW air. Enn er beðið eftir því að því að gengið verði frá kaupunum en greint hefur verið frá því að kaupin nemi 75 milljónum Banda­ríkja­dala. 

Greint var frá því að á fjórða hundrað manns hefði verið sagt upp. Þeirra á meðal voru 111 fast­ráðnir starfs­menn en einnig var á­kveðið að endur­nýja ekki samninga við tíma­bundna starfs­menn og verk­taka. Þá var til­kynnt að á­ætlunar­flugi til Ind­lands yrði hætt og þá kvarnaðist tölu­vert úr flug­véla­flota fé­lagsins. 

Hvað fram­tíðin ber í skauti sér verður að koma í ljós þegar frekari upp­lýsingar berast um sam­komu­lag Indigo og WOW en það er út­lit fyrir að Skúli hafi tryggt stöðu fé­lagsins um ó­komna tíð.

Sósíal­istar í borgar­stjórn og tekist á um virkjunar­á­form 

Gengið var til sveitar­stjórnar­kosninga um land allt í maí. Þar bar hvað hæst að Sósíal­ista­flokkurinn náði inn manni í borgar­stjórn. Sanna Magda­lena Mörtu­dóttir komst inn sem odd­viti flokksins í borginni og hefur látið til sín taka síðan. Fjölgun borgar­full­trúa úr 15 í 23 varð stað­reynd og þá héldu Sam­fylkingin, Píratar og Vinstri græn á­fram í meiri­hluta borgar­stjórnar. Inn í sam­starfið bættist Við­reisn, eigin­legur sigur­vegari kosninganna, sem náði inn tveimur full­trúum, þeim Þór­dísi Lóu Þór­halls­dóttur og Pawel Bar­toszek. 

Ár­nes­hreppur, sveitar­fé­lag í Stranda­sýslu sem telur rétt rúm­lega 40 íbúa, varð ó­væntur mið­punktur sveitar­stjórnar­kosninganna. Upp úr sauð á meðal íbúa hreppsins, sem skiptu sér í tvær fylkingar, virkjana­sinna og náttúru­verndar­sinna.

Fylkingarnar deildu um byggingu Hvalár­virkjunar í hreppnum, sem er sá fá­mennasti á Ís­landi. Skyndi­lega var tals­vert rætt um kjör­skrána í Ár­nes­hreppi í að­draganda sveitar­stjórnar­kosninganna en þegar mest var hafði í­búum í hreppnum skyndi­lega fjölgað um 39 prósent. 

Pétur Guð­munds­son frá Ó­feigs­firði fékk nóg eins og Frétta­blaðið greindi frá í júní. Þá hafði hann lokað veginum að Hva­lá og sagði að „hyskið“, sem mót­fallið var á­formum um virkjun, hefði ekkert að gera þar. 

„Ég er bara orðinn þreyttur á þessu liði. Þetta eru ekki nema ör­fáir menn sem ég myndi loka á. Þeir hafa ekkert þarna að gera,“ sagði Pétur. 

„Nej til ra­c­ism“ og Dana­drottning á full­veldis­há­tíð 

Um há­tíðar­fundinn á Þing­völlum verður ekki rætt án þess að minnast á Piu Kjærs­ga­ard, for­seta danska þingsins. Koma hennar vakti mis­jöfn við­brögð hér á landi en flokkur hennar, Danski þjóðar­flokkurinn, hefur verið sakaður um út­lendinga­and­úð og þá rekur hann harða inn­flytj­enda­stefnu. Þing­menn Pírata snið­gengu há­tíðar­fundinn og þá límdu aðrir á sig lím­miða með skila­boðunum „Nej til ra­c­ism“, sem myndi á ís­lensku út­leggjast sem „Nei við kyn­þátta­hatri“. Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, gekk í burtu er Kjærs­ga­ard hóf ræðu sína, þar sem hún talaði um Ís­land sem vöggu nor­rænnar menningar. 

Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Al­þingis, harmaði við­brögð þing­manna og sagði komu Kjærs­ga­ard ekkert með pólitík eða hennar flokk að gera. Hún væri hingað boðin sem for­seti danska þingsins. Jafn­framt gagn­rýndi hann við­brögð ein­stakra þing­manna og sagði þá hafa sýnt Kjærs­ga­ard ó­virðingu. Þing­for­setinn danski skrifaði pistil um heim­sókn sína hingað á frón og kvaðst ekki ætla að láta mót­lætið á sig fá. Heilt yfir væri hún himin­lifandi með heim­sóknina og þá sér í lagi Þing­velli og fund sinn með Vig­dísi Finn­boga­dóttur, fyrr­verandi for­seta Ís­lands. 

Sam­landi Kjærs­ga­ard, Margrét Þór­hildur Dana­drottning, mætti einnig hingað til lands en til­efnið var 100 ára full­veldis­af­mæli Ís­lendinga. Í hrás­laga­veðri sat drottningin á­samt for­seta Ís­lands, Guðna Th. Jóhannes­syni, og hlýddi á há­tíðar­ræður fyrir framan Stjórnar­ráðið. 

„Ég legg til að við gefum Margréti drottningu gott klapp fyrir að hafa haldið út í þessum kulda og roki,“ sagði Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra undir lok setningar full­veldis­há­tíðarinnar. 

Ís­land í mann­réttinda­ráð Sam­einuðu þjóðanna 

Ís­land steig stórt skref þegar það tók sæti Banda­ríkjanna í mann­réttinda­ráði Sam­einuðu þjóðanna í júlí. Að sögn Guð­laugs Þórs Þórðar­sonar utan­ríkis­ráð­herra bar kallið brátt að eftir að Donald Trump fól Nikki Haley, þá­verandi sendi­herra Banda­ríkjanna gagn­vart SÞ, að aftur­kalla sæti ríkisins í ráðinu. 

„Þegar kemur að mann­réttinda­málum höfum við sér­stak­lega lagt á­herslu á jafn­réttis­mál og mál­efni hin­segin fólks, þetta er nokkuð sem við munum halda á­fram. Það að það skyldi nást þessi sam­staða um okkur er auð­vitað mikil viður­kenning fyrir hvað við höfum verið að gera,“ sagði Guð­laugur Þór í sam­tali við Frétta­blaðið. 

Í byrjun desember var síðan greint frá því að Ís­land hefði verið kosið til að fara með vara­for­mennsku í ráðinu á næsta ári. 

Lög­fræðingar og út­gerðar­menn leggja ríkið 

Í lok októ­ber dæmdi Héraðs­dómur Reykja­víkur ís­lenska ríkið til að greiða Jóni Höskulds­syni fjórar milljónir króna í skaða­bætur og 1,1 milljón í miska­bætur vegna skipunar Sig­ríðar Á. Ander­­sen dóms­­mála­ráð­herra á dómurum við Lands­rétt. 

Einnig féll dómur í máli Ei­­ríks Jóns­­sonar, sem höfðaði mál af sömu á­­stæðu og Jón, og er niður­­­staðan sú að ríkið sé skaða­bóta­­skylt. Hann mun því að öllum líkindum koma til með að láta reyna á skaða­bóta­skylduna. 

Skipun Sig­ríðar á dómurum við Lands­rétt, þvert á mat hæfis­nefndar, dregur því enn dilk á eftir sér. Þeir Ást­ráður Haralds­­son og Jóhannes Rúnar Jóhanns­­son stefndu báðir ríkinu vegna málsins en þeir urðu, líkt og Jón og Ei­ríkur, af dómara­sætum við réttinn. 

Hæsti­réttur dæmdi báðum 700 þúsund krónur í miska­bætur vegna ó­­lög­­mætrar máls­­með­­ferðar sem þeir urðu fyrir við skipun dómara við Lands­rétt. 

Stuttu síðar kvað Hæsti­réttur upp dóm sinn í máli út­gerðar­fé­lagsins Sam­herja gegn Seðla­banka Ís­lands. Niður­staðan var sú að á­kvörðun bankans að leggja stjórn­valds­sekt á hendur fyrir­tækinu hafi ekki sam­ræmst lögum. 

Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, fór mikinn í fjöl­miðlum eftir á og sagði ljóst að Má Guð­munds­syni seðla­banka­stjóra væri ekki stætt. Þor­steinn gekk svo langt að segja að ljóst væri að Már væri „á leiðinni í fangelsi“. Már kvaðst ekki hafa í­hugað stöðu sína en Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra sagði það ekki hafa komið til um­ræðu að víkja honum úr em­bætti. 

Allt lék á reiði­skjálfi vegna Braggans 

Undir lok sumars komst fátt annað að en fram­úr­keyrslan vegna fram­kvæmdanna við Naut­hóls­veg 100. Bragga­málið svo­kallaða var nánast á hvers manns vörum en kostnaður við fram­kvæmdirnar nam 425 milljónum króna. Alls var 352 milljónum út­hlutað í verk­efnið en upp­haf­leg kostnaðar­á­ætlun gerði ráð fyrir 158 milljónum. 

Há­vær krafa var uppi um rann­sókn á fram­úr­keyrslunni og veltu margir því fyrir sér hvernig það gat gerst að endur­byggingin kostaði nær hálfan milljarð. Borgar­stjórn sam­þykkti að fela Innri endur­skoðun Reykja­víkur­borgar að fram­kvæma út­tekt á fram­kvæmdunum og leit skýrsla þess efnis dagsins ljós skömmu fyrir jól. 

Hún var svört og er ljóst að eitt­hvað fór úr­skeiðis þegar kom að nær öllum þáttum verk­efnisins. Þar kemur meðal annars fram að farið hafi verið fram úr sam­þykktum fjár­heimildum og þess hafi heldur ekki verið gætt að sækja við­bótar­fjár­magn áður en stofnað var til kostnaðar. Með því voru sveitar­stjórnar­lög brotin sem og reglur borgarinnar. 

Þá kom fram að upp­lýsinga­gjöf til borgar­ráðs hafi verið ó­á­sættan­leg. Dæmi séu um að villandi eða jafn­vel rangar upp­lýsingar hafi ratað til ráðsins í tengslum við verk­efnið. Hrólfur Jóns­son, fyrr­verandi skrif­stofu­stjóri eigna- og at­vinnu­þróunar, fékk út­reið í skýrslunni en þar er hann sagður hafa brugðist stjórn­enda­á­byrgð all­ræki­lega. 

Sam­hliða kynningunni á niður­stöðu út­tektarinnar var greint frá því að Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri, Þór­dís Lóa Þór­halls­dóttir, for­maður borgar­ráðs, og Hildur Björns­dóttir, full­trúi minni­hlutans, myndu vinna að úr­vinnslu á niður­stöðu innri endur­skoðunar. 

Hildur fór í kjöl­farið fram á að Dagur myndi víkja úr þeim hópi. Það væri ó­á­sættan­legt að æðsti yfir­maður stjórn­sýslunnar sæti í hópnum enda væri það ljóst að skýrslan væri á­fellis­dómur yfir honum og Bragga­verk­efninu í heild. Innri endur­skoðun mun á næstu vikum kynna út­tektir á Sund­höll Reykja­víkur, Mat­höllinni á Hlemmi, Vestur­bæjar­skóla og hjóla­stígunum á Grens­ás­vegi. 

Þjóðin þakkar Báru 

Það var af nógu að taka þegar kom að pólitíkinni á liðnu ári. Klausturs­málið er þó vafa­laust það sem vakti hvað mesta at­hygli, hneykslan og jafn­vel furðu. Stundin og DV birtu fyrst og fjölluðu um upp­tökur þá ó­nefnds aðila á sóða­tali sex þing­manna, fjögurra úr Mið­flokknum og tveggja úr Flokki fólksins, að kvöldi 20. nóvember. Nöfn þeirra Gunnars Braga Sveins­sonar, Önnu Kol­brúnar Árna­dóttur, Sig­mundar Davíðs Gunn­laugs­sonar, Berg­þórs Óla­sonar, Karls Gauta Hjalta­sonar og Ólafs Ís­leifs­sonar voru skyndi­lega á allra vörum og yfir þriggja tíma sam­ræður þeirra á Klaustri bar

Það hvernig sex­menningarnir tóku fyrir aðra þing­menn og fólk úr sam­fé­laginu öllu varð til þess að stórum hluta þjóðarinnar var mis­boðið. Há­vær krafa var, og er raunar enn, um af­sögn þing­mannanna sex og þá gaf könnun Frétta­blaðsins það til kynna að Mið­flokkurinn myndi þurrkast út af þingi yrði gengið til kosninga. 

Þeir Gunnar Bragi og Berg­þór tóku sér leyfi frá þing­störfum en Anna Kol­brún og Sig­mundur Davíð á­kváðu að sitja á­fram. Fram­kvæmda­stjórn Flokks fólksins vék þeim Ólafi Ís­leifs­syni og Karli Gauta úr flokknum en þeir á­kváðu að sitja á­fram sem ó­háðir þing­menn. 

Upp­ljóstrarinn, sem tók upp sam­tal þing­mannanna á gamlan snjall­síma, steig fram hinn 7. desember í við­tali við Stundina. Bára Hall­dórs­dóttir, fötluð hin­segin kona, á­kvað að taka málin í eigin hendur því henni mis­bauð hvernig sex­menningarnir töluðu sín á milli. Báru var hampað sem hetju og á innan við viku eftir að hún steig fram hafði á annað tug­þúsund skráð sig á Face­book-síðuna „Takk Bára“. 

Það var álit þó­nokkurra lög­fróðra að með því að stíga fram undir nafni væri nú hægt að sækja Báru til saka en málinu var einnig vísað til Per­sónu­verndar. Færa mætti rök fyrir að brotið hafi verið á rétti þing­mannanna með upp­tökunum án þeirra vitundar. Bára sagðist ekki óttast slíkt en nokkrum dögum síðar greindi Reimar Péturs­son, lög­maður fjögurra þing­manna Mið­flokksins, frá því að þeir hygðust kanna réttar­stöðu sína. Bára var boðuð fyrir Héraðs­dóm Reykja­víkur en krafa þing­mannanna fól í sér gagna­öflun og að starfs­menn Klausturs yrðu teknir í skýrslu sem vitni fyrir dómi. 

Kröfunni var hafnað en málinu virðist hvergi nærri lokið. Þing­mennirnir hafa enn ekki lagt fram kæru á hendur Báru og þá er ekkert fast í hendi með hugsan­leg réttar­höld. Það verður að skýrast á nýju ári en þing­mennirnir hafa á­frýjað niður­stöðunni um frá­vísun kröfunnar um gagna­öflun og vitna­leiðslur til Lands­réttar. 

Það er vert að í­treka það að listinn er ekki tæmandi heldur endur­speglar hann hluta af þeim málum sem voru hvað mest í um­ræðunni. Af nógu var að taka enda ljóst að árið sem nú er að lokum komið var viðburðaríkt með meiru.