Ókyrrð í háloftunum, umfangsmikill gagnaversþjófnaður, sóðatal kjörinna fulltrúa og braggablús er meðal þess sem var hvað mest í deiglunni á árinu sem er nú að renna sitt skeið. Fréttablaðið hefur tekið saman helstu fréttamál ársins hér innan landsteinanna. Vakin er athygli á því að samantektin endurspeglar aðeins nokkur af þeim stóru málum sem voru í umræðunni og er fjarri því að vera tæmandi.
Sunna Elvira og Sigurður
Það var um miðjan janúar í byrjun árs þegar Fréttablaðið greindi frá því að Sunna Elvira Þorkelsdóttir, þrítugur lögfræðingur, hefði fallið milli hæða, um fjóra metra, á heimili sínu á Malaga á Spáni. Þjóðin fylgdist grannt með hennar málum og þáverandi eiginmanns hennar, Sigurðar Kristinssonar. Böndin bárust fljótlega að Sigurði í tengslum við svokallað Skáksambandsmál, sem snerist um stórfelldan fíkniefnaflutning til Íslands.
Sigurður var úrskurðaður í varðhald á Spáni en Sunna lögð inn á spítala. Fréttablaðið ræddi við Sunnu skömmu eftir slysið en hún lýsti þar taugaáfallinu sem hún fékk eftir innlögnina á spítalann. Sunna kom ekki til landsins fyrr en í apríl en hún og Sigurður höfðu verið úrskurðuð í farbann vegna málsins.

Sigurður var tvívegis ákærður á árinu, annars vegar fyrir aðild í Skáksambandsmálinu, og hins vegar vegna skattalagabrota í gegnum fyrirtækið SS verk. Skattsvikin voru sögð nema 105 milljónum króna. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Sigurð í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 137 milljóna króna í sekt. Aðalmeðferð í Skáksambandsmálinu fer fram snemma í janúar á nýju ári.
Sigurður og Sunna Elvira slitu samvistum eftir allt sem á hafði gengið. Í viðtali í nóvember sagðist Sunna, sem er lömuð fyrir neðan brjóst, stefna að því að verða besta útgáfan af sjálfri sér.

Sextán ár fyrir hrottafengið morð á Hagamel
Í apríl dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Khaled Cairo, 39 ára Jemena, í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Sanitu Brauna, 44 ára konu frá Lettlandi, í íbúð þar sem hún bjó á Hagamel í september í fyrra. Fréttablaðið fylgdist með aðalmeðferð málsins og greindi frá. Þar komu nágrannar og lögreglumenn fyrir dóminn. Einn lögreglumaðurinn lýsti aðkomunni sem skelfilegri. Þar hafi Cairo staðið alblóðugur „eins og módel“. Hann hafi hlegið þegar hann sá myndir af líki Sanitu við skýrslutöku eftir handtökuna.
Nágranni Sanitu lýsti því fyrir dómi hvernig Cairo gekk hrottalega í skrokk á henni með afleiðingunum voveiflegu. Fyrir dómi var spiluð upptaka úr símtali nágrannans við Neyðarlínuna en þar mátti heyra Sanitu öskra eftir hjálp. Cairo snöggreiddist við dómsuppsöguna og greindi verjandi hans síðar frá því að hann hygðist áfrýja niðurstöðunni til Landsréttar.

Fjölskylduharmleikur að Gýgjarhóli
„Vettvangurinn benti eindregið til þess að þarna hefði ég átt hlut að máli,“ sagði Valur Lýðsson, bóndi að Gýgjarhóli II í Biskupstungum, þegar aðalmeðferð fór fram yfir honum í lok ágúst. Valur var ákærður og síðar dæmdur fyrir morðið á bróður sínum, Ragnari Lýðssyni, á Gýgjarhóli II að kvöldi föstudagsins langa.
Valur lýsti við aðalmeðferðina því sem hann rak minni til um kvöldið. Hann hafi þar rætt framtíðaráform bæjarins við Ragnar og bróður þeirra Örn. Bræðurnir voru gestkomandi að heimili Vals. Valur sagði að hann og Ragnar hefðu drukkið um kvöldið og hinn síðarnefndi brugðist ókvæða við þegar þeir hófu að ræða hugmyndina að færa bæjarstæðið og koma upp kaldavatnsveitu. Um morguninn hafi hann vaknað og komið að líki Ragnars. Valur var dæmdur til sjö ára fangelsisvistar.

Dagur Hoe Sigurjónsson, 25 ára, var í júní dæmdur í sautján ára fangelsi fyrir að hafa ráðið hinum albanska Klevis Sula bana á Austurvelli í desember í fyrra. Dagur réðst einnig á Elio Hasani, félaga Klevis, og veitti honum nokkur stungusár. Elio komst lífs af og var útskrifaður af spítala nokkrum dögum eftir árásina.
Við aðalmeðferð málsins kom fram að Dagur hafi verið í uppnámi umrætt kvöld, eftir rifrildi við kærustu sína. Hann hafi endurupplifað árás sem hann varð áður fyrir þegar brotaþolar gengu upp að honum á Austurvelli, þar sem hann sat til að reyna að ná áttum. Við það hafi hann ráðist á þá. Í slagsmálunum hafi hann gripið til hnífs sem hann hafði meðferðis, með fyrrgreindum afleiðingum.

Guðmundar- og Geirfinnsmál leidd til lykta
Það var í lok september sem umtalaðasta og umdeildasta sakamál Íslandssögunnar var leitt til lykta, nærri fjörutíu árum eftir að Hæstiréttur kvað upp upprunalega dóm sinn. Sakborningarnir fimm í Guðmundar- og Geirfinnsmálum voru sýknaðir, fimm árum eftir að starfshópur Ögmundar Jónassonar, þáverandi innanríkisráðherra, komst að þeirri niðurstöðu að játningar þeirra Sævars Marinós Ciesielski, Kristjáns Viðars Viðarssonar, Tryggva Rúnars Leifssonar, Guðjóns Skarphéðinssonar og Alberts Klahns Skaftasonar væru ómarktækar.
Sindri stelur senunni
Þjóðin fylgdist grannt með málum Sindra Þórs Stefánssonar, ferðalögum hans og ævintýrum. Sindri Þór var handtekinn snemma á árinu, grunaður um aðild að umfangsmiklum þjófnaði á 600 tölvum í gagnaverum Advania á Reykjanesi. Var hann vistaður í varðhald í fangelsið Hólmsheiði en síðar að Sogni. Þegar á Sogn var komið strauk Sindri úr fangelsinu, sem er opið, og flúði land.

Deilt var um það hvort Sindri hafi verið frjáls ferða sinna eða ekki en gæsluvarðhaldsúrskurður hafði þá runnið úr gildi. Sindri fór í flug til Svíþjóðar, meðal annars með forsætisráðherra. Fréttablaðið birti fyrst yfirlýsingu Sindra sem sagðist ætla að koma heim fljótlega. Hann var handtekinn í Amsterdam tveimur dögum síðar. Ákæra var gefin út í gagnaversmálinu svokallaða í lok ágúst á hendur Sindra og sex öðrum. Sindri var í farbanni fram í október en hann reiddi fram 2,5 milljónir í tryggingu til að losna úr því og flaug til Spánar með fjölskyldu sinni.
Aðalmeðferð yfir Sindra og sexmenningunum fór fram í byrjun desember og er enn beðið eftir niðurstöðu í málinu. Sindri og verjandi hans hafa gagnrýnt aðferðir lögreglu vegna málsins. Hafa þeir gefið lögreglu það að hafa haldið aftur gögnum málsins og segja hana hafa „svifist einskis“ við öflun upplýsinga.
Ljósmæður í hart
Kjaradeila ljósmæðra og ríkisins var töluvert í deiglunni í vor og sumar. Deilan rataði inn á borð ríkissáttasemjara í febrúar en þá höfðu ljósmæður verið samningslausar síðan í ágúst. Fundir samninganefndanna töldu á annan tug og felldi Ljósmæðrafélag Íslands fyrri tillögu sáttasemjara í atkvæðagreiðslu í byrjun júní. Hins vegar samþykkti félagið miðlunartillögu sem sett var fram í júlí.

Allt í frosti hjá Sigur Rós
Fréttablaðið greindi frá því í mars að eignir þeirra Jóns Þórs Birgissonar, oftast nefndur Jónsi, Georgs Holm og Orra Páls Dýrasonar, meðlima Sigur Rósar, hefðu verið kyrrsettar að kröfu tollstjóra. Um var að ræða kyrrsetningu eigna að verðmæti um 800 milljóna króna.
Undir hana féllu kyrrsetningar á fasteignum, ökutækjum, bankareikningum og hlutafé í fyrirtækjum. Hæsta krafan var á hendur söngvara sveitarinnar, Jónsa líkt og hann er jafnan kallaður, en hún nam 638 milljónum króna. Í yfirlýsingu sem sveitin sendi frá sér sögðust meðlimir hennar ekki hafa neitt að fela. Um væri að ræða brest hjá endurskoðanda sem starfaði fyrir þá.
„Við munum greiða þetta til baka og finna út hvað það var sem fór úrskeiðis. Við treystum þarna endurskoðanda okkar og töldum að allt væri í góðu, þegar það reyndist svo þveröfugt. Við viljum hafa allt klárt og uppi á borðum. Þetta eru engin Panama-skjöl eða neitt slíkt. Við borgum okkar skatt eins og aðrir og þetta er allt í farvegi,“ sagði Georg Holm, bassaleikari sveitarinnar í mars.

Þá fækkaði meðlimum sveitarinnar um einn í byrjun október þegar trommuleikarinn Orri Páll sagði skilið við Sigur Rós eftir ásökun um nauðgun. Bandaríska listakonan Meagan Boyd steig opinberlega fram í september og sagði Orra hafa brotið á sér fyrir fimm árum þegar sveitin var stödd í Los Angeles við upptökur á plötunni Kveik.
„Vegna umfangs þessa máls hef ég ákveðið að hætta í Sigur Rós. Sú ákvörðun er mér þungbær, en ég get ekki látið þessar alvarlegu ásakanir hafa áhrif á hljómsveitina og það mikilvæga og fallega starf sem þar hefur verið unnið síðustu ár. Starf sem er mér svo kært,“ skrifaði Orri í færslu á Facebook þar sem hann greindi fyrst frá.
Úttekt í Orkuveitunni
Óhætt er að segja að mikil ólga hafi verið meðal starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í sumar. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar framkvæmdi úttekt á vinnustaðamenningu þar eftir að þrír starfandi stjórnendur voru sakaðir um kynferðislega áreitni í starfi eða fyrir kynferðisbrot áður en störf hófust.
Málið hófst með uppsögn Bjarna Más Júlíussonar, framkvæmdastjóra hjá Orku náttúrunnar, dótturfélagi OR, en honum var sagt upp vegna óviðeigandi hegðunar í garð samstarfskvenna sinna. Þeirra á meðal var Áslaug Thelma Einarsdóttir, sem einnig var sagt upp störfum um svipað leyti. Áslaug lýsti reynslu sinni í færslu á Facebook, en hún og Einar Bárðarson, eiginmaður hennar, vönduðu Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, ekki kveðjurnar.
Um leið og tilkynnt var að úttekt yrði gerð á málum OR var greint frá því að Bjarni færi í tímabundið leyfi frá forstjórastörfum. Helga Jónsdóttir tók við í hans stað og var niðurstaða úttektarinnar kynnt í nóvember. Þar kom meðal annars fram að uppsagnir bæði Áslaugar og Bjarna Más hefðu verið réttmætar en betur hefði mátt standa að þeim. Þar kom einnig fram að vinnustaðamenning og starfsánægja væri betri en almennt gerist á vinnumarkaði hér á landi.

Ókyrrð í háloftunum
Flugfélögin voru í kastljósi fjölmiðlanna lungann af árinu. Ein stærstu tíðindin hjá Icelandair voru vafalaust þau að Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins til tíu ára, lét af störfum. Ákvörðunina tilkynnti hann eftir að félagið hafði lækkað afkomuspá sína tvo mánuði í röð.
„Ég er stoltur af því sem hefur áorkast undanfarin ár og þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með frábæru fólki. Framtíð Icelandair Group er að mínu mati björt; félagið er fjárhagslega sterkt, með framúrskarandi starfsfólk og með góða stöðu á mörkuðum. Ég þakka samstarfsfólki og stjórn fyrir frábært samstarf sem aldrei hefur borið skugga á,“ sagði Björgólfur við starfsflokin.
Samhliða tilkynningunni var sagt frá því að Bogi Nils Bogason, þáverandi fjármálastjóri félagsins, tæki við starfi forstjóra tímabundið á meðan unnið yrði að ráðningu á eftirmanni Björgólfs. Ráðningin tímabundna varð þó föst nú í byrjun desember þegar félagið ákvað að Bogi Nils yrði eftirmaður Björgólfs.
Félagið gaf út lækkun afkomuspá hinn 8. júlí. Þar kom fram að lækkunin næmi allt að 70 milljónum Bandaríkjadala, 37 prósent. Félagið tilkynnti síðan síðari lækkun afkomuspárinnar samhliða afsögn Björgólfs. Sama dag hríðféll félagið í Kauphöll Íslands, um rúmlega 17 prósent.

Þrátt fyrir raunir Icelandair um miðbik árs verður ekki minnst á íslensku flugfélögin án þess að rekja þrautagöngu WOW air og Skúla Mogensen, forstjóra félagsins, á liðnu ári. Segja má að atburðarásin hafi byrjað með skuldabréfaútboði flugfélagsins sem lauk um miðjan september. Þar tryggði félagið sér fjármögnun sem nam um 60 milljónum evra.
Hinn 5. nóvember var síðan greint frá því að Icelandair hefði gert kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í WOW air. Boðað var til hluthafafundar þar sem taka átti afstöðu til kaupsamningsins. Þriðjudaginn 27. nóvember sendi Skúli tölvupóst á starfsmenn félagsins þar sem hann fór yfir stöðuna. Þar greindi hann frá því að hann hafi sjálfur fjárfest fyrir 5,5 milljónir evra, þá á jafnvirði ríflega 770 milljóna króna, í eigin félagi. Í póstinum bætti hann við að nokkrir hefðu sýnt félaginu áhuga, meðal annars aðrir fjárfestar en Icelandair.
Ákvörðunin að greina frá slíku þótti umdeild en tveimur dögum síðar var gáfu félögin það út að Icelandair hefði fallið frá kaupunum. Skúli kvaðst bjartsýnn á stöðuna en sama dag greindi félagið frá því að Indigo Partners, undir forystu flugmógúlsins Bill Franke, hygðist fjárfesta í WOW.
Indigo er aðalfjárfestirinn í Tiger Airways sem er með bækistöðvar í Singapore, og Spirit Airlines, sem er staðsett í Flórída. Það er einnig stór fjárfestir í Wizz Air Holdings, Plc, Frontier Airlines, Volaris Airlines og JetSMART.
Sjálfur lagði Franke leið sína til Íslands til fundar við Skúla og stjórnendur WOW air. Enn er beðið eftir því að því að gengið verði frá kaupunum en greint hefur verið frá því að kaupin nemi 75 milljónum Bandaríkjadala.
Greint var frá því að á fjórða hundrað manns hefði verið sagt upp. Þeirra á meðal voru 111 fastráðnir starfsmenn en einnig var ákveðið að endurnýja ekki samninga við tímabundna starfsmenn og verktaka. Þá var tilkynnt að áætlunarflugi til Indlands yrði hætt og þá kvarnaðist töluvert úr flugvélaflota félagsins.
Hvað framtíðin ber í skauti sér verður að koma í ljós þegar frekari upplýsingar berast um samkomulag Indigo og WOW en það er útlit fyrir að Skúli hafi tryggt stöðu félagsins um ókomna tíð.

Sósíalistar í borgarstjórn og tekist á um virkjunaráform
Gengið var til sveitarstjórnarkosninga um land allt í maí. Þar bar hvað hæst að Sósíalistaflokkurinn náði inn manni í borgarstjórn. Sanna Magdalena Mörtudóttir komst inn sem oddviti flokksins í borginni og hefur látið til sín taka síðan. Fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 varð staðreynd og þá héldu Samfylkingin, Píratar og Vinstri græn áfram í meirihluta borgarstjórnar. Inn í samstarfið bættist Viðreisn, eiginlegur sigurvegari kosninganna, sem náði inn tveimur fulltrúum, þeim Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur og Pawel Bartoszek.
Árneshreppur, sveitarfélag í Strandasýslu sem telur rétt rúmlega 40 íbúa, varð óvæntur miðpunktur sveitarstjórnarkosninganna. Upp úr sauð á meðal íbúa hreppsins, sem skiptu sér í tvær fylkingar, virkjanasinna og náttúruverndarsinna.

Fylkingarnar deildu um byggingu Hvalárvirkjunar í hreppnum, sem er sá fámennasti á Íslandi. Skyndilega var talsvert rætt um kjörskrána í Árneshreppi í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna en þegar mest var hafði íbúum í hreppnum skyndilega fjölgað um 39 prósent.
Pétur Guðmundsson frá Ófeigsfirði fékk nóg eins og Fréttablaðið greindi frá í júní. Þá hafði hann lokað veginum að Hvalá og sagði að „hyskið“, sem mótfallið var áformum um virkjun, hefði ekkert að gera þar.
„Ég er bara orðinn þreyttur á þessu liði. Þetta eru ekki nema örfáir menn sem ég myndi loka á. Þeir hafa ekkert þarna að gera,“ sagði Pétur.

„Nej til racism“ og Danadrottning á fullveldishátíð
Um hátíðarfundinn á Þingvöllum verður ekki rætt án þess að minnast á Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins. Koma hennar vakti misjöfn viðbrögð hér á landi en flokkur hennar, Danski þjóðarflokkurinn, hefur verið sakaður um útlendingaandúð og þá rekur hann harða innflytjendastefnu. Þingmenn Pírata sniðgengu hátíðarfundinn og þá límdu aðrir á sig límmiða með skilaboðunum „Nej til racism“, sem myndi á íslensku útleggjast sem „Nei við kynþáttahatri“. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gekk í burtu er Kjærsgaard hóf ræðu sína, þar sem hún talaði um Ísland sem vöggu norrænnar menningar.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, harmaði viðbrögð þingmanna og sagði komu Kjærsgaard ekkert með pólitík eða hennar flokk að gera. Hún væri hingað boðin sem forseti danska þingsins. Jafnframt gagnrýndi hann viðbrögð einstakra þingmanna og sagði þá hafa sýnt Kjærsgaard óvirðingu. Þingforsetinn danski skrifaði pistil um heimsókn sína hingað á frón og kvaðst ekki ætla að láta mótlætið á sig fá. Heilt yfir væri hún himinlifandi með heimsóknina og þá sér í lagi Þingvelli og fund sinn með Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.

Samlandi Kjærsgaard, Margrét Þórhildur Danadrottning, mætti einnig hingað til lands en tilefnið var 100 ára fullveldisafmæli Íslendinga. Í hráslagaveðri sat drottningin ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, og hlýddi á hátíðarræður fyrir framan Stjórnarráðið.
„Ég legg til að við gefum Margréti drottningu gott klapp fyrir að hafa haldið út í þessum kulda og roki,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undir lok setningar fullveldishátíðarinnar.
Ísland í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna
Ísland steig stórt skref þegar það tók sæti Bandaríkjanna í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í júlí. Að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra bar kallið brátt að eftir að Donald Trump fól Nikki Haley, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna gagnvart SÞ, að afturkalla sæti ríkisins í ráðinu.
„Þegar kemur að mannréttindamálum höfum við sérstaklega lagt áherslu á jafnréttismál og málefni hinsegin fólks, þetta er nokkuð sem við munum halda áfram. Það að það skyldi nást þessi samstaða um okkur er auðvitað mikil viðurkenning fyrir hvað við höfum verið að gera,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við Fréttablaðið.
Í byrjun desember var síðan greint frá því að Ísland hefði verið kosið til að fara með varaformennsku í ráðinu á næsta ári.

Lögfræðingar og útgerðarmenn leggja ríkið
Í lok október dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur íslenska ríkið til að greiða Jóni Höskuldssyni fjórar milljónir króna í skaðabætur og 1,1 milljón í miskabætur vegna skipunar Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra á dómurum við Landsrétt.
Einnig féll dómur í máli Eiríks Jónssonar, sem höfðaði mál af sömu ástæðu og Jón, og er niðurstaðan sú að ríkið sé skaðabótaskylt. Hann mun því að öllum líkindum koma til með að láta reyna á skaðabótaskylduna.
Skipun Sigríðar á dómurum við Landsrétt, þvert á mat hæfisnefndar, dregur því enn dilk á eftir sér. Þeir Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson stefndu báðir ríkinu vegna málsins en þeir urðu, líkt og Jón og Eiríkur, af dómarasætum við réttinn.
Hæstiréttur dæmdi báðum 700 þúsund krónur í miskabætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar sem þeir urðu fyrir við skipun dómara við Landsrétt.
Stuttu síðar kvað Hæstiréttur upp dóm sinn í máli útgerðarfélagsins Samherja gegn Seðlabanka Íslands. Niðurstaðan var sú að ákvörðun bankans að leggja stjórnvaldssekt á hendur fyrirtækinu hafi ekki samræmst lögum.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, fór mikinn í fjölmiðlum eftir á og sagði ljóst að Má Guðmundssyni seðlabankastjóra væri ekki stætt. Þorsteinn gekk svo langt að segja að ljóst væri að Már væri „á leiðinni í fangelsi“. Már kvaðst ekki hafa íhugað stöðu sína en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði það ekki hafa komið til umræðu að víkja honum úr embætti.

Allt lék á reiðiskjálfi vegna Braggans
Undir lok sumars komst fátt annað að en framúrkeyrslan vegna framkvæmdanna við Nauthólsveg 100. Braggamálið svokallaða var nánast á hvers manns vörum en kostnaður við framkvæmdirnar nam 425 milljónum króna. Alls var 352 milljónum úthlutað í verkefnið en upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir 158 milljónum.
Hávær krafa var uppi um rannsókn á framúrkeyrslunni og veltu margir því fyrir sér hvernig það gat gerst að endurbyggingin kostaði nær hálfan milljarð. Borgarstjórn samþykkti að fela Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að framkvæma úttekt á framkvæmdunum og leit skýrsla þess efnis dagsins ljós skömmu fyrir jól.
Hún var svört og er ljóst að eitthvað fór úrskeiðis þegar kom að nær öllum þáttum verkefnisins. Þar kemur meðal annars fram að farið hafi verið fram úr samþykktum fjárheimildum og þess hafi heldur ekki verið gætt að sækja viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar. Með því voru sveitarstjórnarlög brotin sem og reglur borgarinnar.

Þá kom fram að upplýsingagjöf til borgarráðs hafi verið óásættanleg. Dæmi séu um að villandi eða jafnvel rangar upplýsingar hafi ratað til ráðsins í tengslum við verkefnið. Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri eigna- og atvinnuþróunar, fékk útreið í skýrslunni en þar er hann sagður hafa brugðist stjórnendaábyrgð allrækilega.
Samhliða kynningunni á niðurstöðu úttektarinnar var greint frá því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, og Hildur Björnsdóttir, fulltrúi minnihlutans, myndu vinna að úrvinnslu á niðurstöðu innri endurskoðunar.
Hildur fór í kjölfarið fram á að Dagur myndi víkja úr þeim hópi. Það væri óásættanlegt að æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar sæti í hópnum enda væri það ljóst að skýrslan væri áfellisdómur yfir honum og Braggaverkefninu í heild. Innri endurskoðun mun á næstu vikum kynna úttektir á Sundhöll Reykjavíkur, Mathöllinni á Hlemmi, Vesturbæjarskóla og hjólastígunum á Grensásvegi.

Þjóðin þakkar Báru
Það var af nógu að taka þegar kom að pólitíkinni á liðnu ári. Klaustursmálið er þó vafalaust það sem vakti hvað mesta athygli, hneykslan og jafnvel furðu. Stundin og DV birtu fyrst og fjölluðu um upptökur þá ónefnds aðila á sóðatali sex þingmanna, fjögurra úr Miðflokknum og tveggja úr Flokki fólksins, að kvöldi 20. nóvember. Nöfn þeirra Gunnars Braga Sveinssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Bergþórs Ólasonar, Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar voru skyndilega á allra vörum og yfir þriggja tíma samræður þeirra á Klaustri bar
Það hvernig sexmenningarnir tóku fyrir aðra þingmenn og fólk úr samfélaginu öllu varð til þess að stórum hluta þjóðarinnar var misboðið. Hávær krafa var, og er raunar enn, um afsögn þingmannanna sex og þá gaf könnun Fréttablaðsins það til kynna að Miðflokkurinn myndi þurrkast út af þingi yrði gengið til kosninga.
Þeir Gunnar Bragi og Bergþór tóku sér leyfi frá þingstörfum en Anna Kolbrún og Sigmundur Davíð ákváðu að sitja áfram. Framkvæmdastjórn Flokks fólksins vék þeim Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta úr flokknum en þeir ákváðu að sitja áfram sem óháðir þingmenn.
Uppljóstrarinn, sem tók upp samtal þingmannanna á gamlan snjallsíma, steig fram hinn 7. desember í viðtali við Stundina. Bára Halldórsdóttir, fötluð hinsegin kona, ákvað að taka málin í eigin hendur því henni misbauð hvernig sexmenningarnir töluðu sín á milli. Báru var hampað sem hetju og á innan við viku eftir að hún steig fram hafði á annað tugþúsund skráð sig á Facebook-síðuna „Takk Bára“.

Það var álit þónokkurra lögfróðra að með því að stíga fram undir nafni væri nú hægt að sækja Báru til saka en málinu var einnig vísað til Persónuverndar. Færa mætti rök fyrir að brotið hafi verið á rétti þingmannanna með upptökunum án þeirra vitundar. Bára sagðist ekki óttast slíkt en nokkrum dögum síðar greindi Reimar Pétursson, lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins, frá því að þeir hygðust kanna réttarstöðu sína. Bára var boðuð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur en krafa þingmannanna fól í sér gagnaöflun og að starfsmenn Klausturs yrðu teknir í skýrslu sem vitni fyrir dómi.
Kröfunni var hafnað en málinu virðist hvergi nærri lokið. Þingmennirnir hafa enn ekki lagt fram kæru á hendur Báru og þá er ekkert fast í hendi með hugsanleg réttarhöld. Það verður að skýrast á nýju ári en þingmennirnir hafa áfrýjað niðurstöðunni um frávísun kröfunnar um gagnaöflun og vitnaleiðslur til Landsréttar.
Það er vert að ítreka það að listinn er ekki tæmandi heldur endurspeglar hann hluta af þeim málum sem voru hvað mest í umræðunni. Af nógu var að taka enda ljóst að árið sem nú er að lokum komið var viðburðaríkt með meiru.