Mjólkursamsalan selur íslenskum matvælafyrirtækjum nýmjólkurduft og undanrennuduft á miklu hærra verði en MS selur þessar vörur á til erlendra fyrirtækja. Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í aðsendrigrein á vef Fréttablaðsins í dag.

Ólafur segir mjólkur- og undanrennuduft notað í margs konar vörur, meðal annars sælgæti, ís, kex og kökur og unnar kjötvörur. „Í krafti einokunarstöðu sinnar er Mjólkursamsalan eini seljandi mjólkur- og undanrennudufts á Íslandi. Hún hefur enga innlenda samkeppni. Í skjóli tollverndarinnar eiga önnur innlend matvælafyrirtæki, sem nota mjólkurduft í framleiðslu sína, í raun ekki annan kost en að kaupa vörurnar af MS og hún hefur því enga erlenda samkeppni heldur,“ bendir Ólafur á.

Að sögn Ólafs eru tollarnir á innflutt mjólkur- og undanrennuduft „ekkert smáræði“, verðtollur sé 30 prósent auk 649 til 810 króna magntolls á hvert kíló.

„Þetta þýðir að til dæmis innflutt undanrennuduft, þar sem innflutningsverðið er 340 krónur, tekur 102 króna verðtoll og 649 króna magntoll, samtals 751 krónu, og ríflega þrefaldast í verði, endar í 1.091 krónu. Heimsmarkaðsverðið á nýmjólkurdufti er á bilinu 416-429 krónur og á undanrennudufti 326-364 krónur, miðað við tölur frá því seint á síðasta ári.“

Þá útskýrir Ólafur að innlend matvælafyrirtæki borgi MS 623 krónur á kílóið af nýmjólkurdufti og 608 krónur fyrir undanrennuduft á 608 krónur sem sé miklu hærra en heimsmarkaðsverð. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hafi MS hins vegar selt yfir 500 tonn af undanrennudufti úr landi í fyrra á meðalverðinu 333 og 345 krónur á kíló.

„Það verður að velta því upp hvort vilji sé til að fórna samkeppnishæfni iðngreina sem keppa við tollalausan innflutning til að bæta að óþörfu stöðu þeirra sem vilja okra á íslenzku mjólkurdufti,“ skrifar Ólafur og spyr hvað stjórnvöld hyggist gera. Eins og stundum er hagsmunir tengdir landbúnaðinum eigi í hlut virðist stjórnmálamenn láta sér standa á sama.

„Stjórnmálamenn hljóta samt að þurfa að svara fyrir þá stöðu sem viðgengst í skjóli undanþágu frá samkeppnislögum og tollverndar, enda er hvort tveggja á þeirra ábyrgð. Ætla þeir bara að þegja við því að matvælafyrirtækjum sé mismunað með þessum ósvífna hætti, á kostnað innlendrar matvælaframleiðslu og íslenzkra neytenda?“ skrifar framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.