Þeir sem nýta sér bókasöfn landsins mega búast við bættri og þægilegri þjónustu á næstu misserum en nú stendur til að innleiða nýtt bókasafnskerfi hjá Landskerfi bókasafna hf. Félagið undirritaði í lok síðasta mánaðar samning við fyrirtækið Innovative Global Interfaces Ltd. um kaup á nýju kerfi.

Kerfið sem nú er í notkun kallast Gegnir og er alhliða bókasafnskerfi sem nýtist í helstu rekstrarþáttum bókasafna um land allt, til dæmis við útlán, bókfræðiskráningu og millisafnalán. Dyggir notendur Gegnis þurfa þó ekki að örvænta því heiti vörumerkisins gamalkunna mun haldast óbreytt. Einungis er um að ræða breyttan og bættan hugbúnað kerfisins.

Sveinbjörg Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Landskerfis bókasafna, segir í samtali við Fréttablaðið að kerfið verði til hagsbóta fyrir lánþegana. Áhersla verði til að mynda lögð á bætta sjálfsafgreiðslu í gegnum netið. „Einnig er verið að boða samþættingu við ýmis önnur kerfi eins og kerfi skólanna; Mentor, Innu, Ugluna og fleiri kerfi,“ segir Sveinbjörg. Þannig geti nemendur nálgast stöðu útlána sinna og fleira í gegnum nemendakerfi sín.

Brad Rogers umsjónarmaður kerfisinnleiðingar hjá Innovative, Sveinbjörg Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Landskerfis bókasafna hf. og Colin Carter sölustjóri Innovative í Evrópu.

Þá mun nýja kerfið ekki síst gagnast starfsfólki bókasafnanna og bæta innri starfsemi þeirra til muna. Langflest bókasöfn landsins eru aðilar að Gegni eða alls um 300 bókasöfn. Sveinbjörg bendir á að í því felist sérstaða þessa kerfisreksturs, hann sé fyrir allt landið. Slíkt sé ekki þekkt víða í heiminum en það auðveldi starfsemi safnanna og sé þægilegra fyrir notendur.

Nýja kerfið var valið að undangengnu útboði á Evrópska efnahagssvæðinu og til grundvallar því lá ítarleg kröfulýsing sem bókasöfnin unnu í samstarfi við Landskerfi bókasafna. Stefnt er að innleiðingu þess á árinu 2020.

Aðspurð segir Sveinbjörg nýtt kerfi auðvitað kosta sitt. „En við höfum komið þessu þannig fyrir að það mun væntanlega ekki falla mikill kostnaður á bókasöfnin, en þetta kostar auðvitað allt saman.“