Við höfum stundum sagt í stríðni að Reykjavík sé aldrei skemmtilegri en um verslunarmannahelgina þegar fíflin eru farin út á land,“ segir Ásgeir Guðmundsson, einn skipuleggjenda tónlistarhátíðarinnar Innipúkans. „Sem er fyndið af því að það er satt,“ bætir hann við og hlær.

Hátíðin fagnar nú 20 ára afmæli en hún var haldin í fyrsta skipti í Iðnó árið 2002. „Þá var þetta eitt kvöld, ein tónlistarveisla, en er nú orðið að þriggja daga tónlistarveislu þar sem fram koma ótrúlegir listamenn,“ segir Ásgeir.

„Hugmyndin að Innipúkanum var sú að bjóða upp á eitthvert líf í borginni um verslunarmannahelgina en yfirskriftin var aldrei sú að setja þessa hátíð til höfuðs útihátíðum, en það eru ekki allir sem hafa áhuga fyrir því að liggja blautir í tjaldi svo þetta er ákveðið mótvægi við það,“ segir Ásgeir.

Ásgeir Guðmundsson, skipuleggjendi Innipúkans.

Allir tónleikarnir inni

Á Innipúkanum fara allir tónleikar fram innandyra, í Gamla bíói og á efri hæð Röntgen á Hverfisgötu. „Reglan á útihátíðum er ekki endilega sú að fókusinn sé á tónlistina en við höfum alltaf sagt það að Innipúkinn er tónlistarhátíð þar sem boðið er upp á alvöru tónlistaratriði með alvöru hljóðkerfi,“ segir Ásgeir.

Þrátt fyrir að tónleikarnir fari fram innandyra geta gestir einnig skemmt sér og kælt sig úti. Götunni fyrir framan Gamla bíó, Ingólfsstræti, verður lokað og hún tyrfð. „Þar verður karnival-stemning og fólk getur komið sveitt af tónleikunum og notið lífsins undir ljósum og veifum,“ segir Ásgeir.

Vaninn er sá að skemmtileg stemning myndast á útisvæði Innipúkans þar sem hægt er að kæla sig niður á millli tónleika.
Mynd/Aðsend

Allir fá jafnt

Á Innipúkanum kemur fram fjöldi listafólks, svo sem Bríet, Flóni, Aron Can, Reykjavíkurdætur, Kusk og Bjartar sveiflur. Öll þau sem koma að skipulagningu hátíðarinnar vinna í sjálfboðavinnu en Innipúkinn er óhagnaðardrifin hátíð. „Innipúkinn hefur alltaf verið haldinn af bransa- og tónlistarfólki og stefnan hefur alltaf verið sú að allri innkomu er skipt jafnt á milli allra sem koma fram,“ útskýrir Ásgeir.

„Það skiptir því engu máli hversu stórt eða lítið nafn þú ert, allir fá jafnt en enginn veit hvað það verður fyrir en eftir á. Þetta er stemningin sem hefur alltaf verið á Innipúkanum,“ bætir hann við.

Enn eru til miðar á hátíðina og er bæði hægt að kaupa helgarpassa og passa á stök kvöld. „Það er oft þannig að fólk er að ákveða fram á síðustu stundu hvort það fari úr bænum eða ekki og sumir fara kannski ekki alla helgina svo það hefur reynst vel að selja á stök kvöld,“ segir Ásgeir. „Svo höfum við viljað hafa þetta þannig að ef fólk er á rölti um bæinn geti það tekið skyndiákvörðun og mætt á Innipúkann.“