Umboðsmaður Alþingis bíður þess að ráðherra svari bréfi sem hann sendi fyrr í mánuðinum um einveruherbergi barna í grunnskólum á landinu.
Að frumkvæði embættisins hafa innilokanir barna og einskonar skammarkrókar verið til skoðunar hjá þeim en auk þess hafa þau aflað gagna frá sveitarfélögum og menntamálaráðuneyti og þá hefur starfsfólk embættisins heimsótt þrjá skóla sem liður í rannsókn þeirra.
Heimsóttu þrjá skóla
„Við öfluðum þessara gagna með fyrirspurnum til sveitarfélaga og til ráðuneytisins og síðan fórum við á vettvang í þremur skólum,“ segir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, um bréf sem hann sendi á ráðherra fyrr í mánuðinum en þar óskaði hann eftir því að ráðuneytið myndi útskýra afstöðu sína betur og ráðherra bregðast við þeim ábendingum sem koma fram í bréfinu um einveruherbergi nemenda í grunnskólum og þann vanda sem blasi við vegna „skóla án aðgreiningar“.
„Niðurstaða þessara skoðunar er, að svo stöddu sú, að þarna sé ekki um ræða kerfisbundið verklag sem feli í sér frelsissviptingu umfram neyðarréttar- eða nauðvarnartilvik þar sem ljóst er að frelsissvipting getur aðeins varað í mjög skamman tíma. En eins og lögð er áhersla á þá erum við ekki að rannsaka einstaka mál þar sem frelsissvipting á slíkum grundvelli kann að hafa verið úr hófi. Það sem við höfðum áhuga á fyrst og fremst var að kanna hvort það væri búið að koma upp einhverju almennu verklagi í grunnskólum landsins sem ekki samrýmist lögum um grunnskóla, almennum reglum og mannréttindum,“ segir Skúli.
Innleiða verklag Brúarskóla án nokkurs eftirlits
Hann segir að bréfið skýrt og að það sé kallað eftir því að ráðuneytið taki afstöðu til þeirrar aðferðarfræði og verklagi sem búið er að innleiða í fleiri skólum með notkun einveruherbergja.
Í bréfinu segir, sem dæmi, að einhverjir skólar hafi innleitt verklag frá Brúarskóla, sem er sérskóli fyrir börn og unglinga með alvarlegan hegðunar-, tilfinningar- og geðrænan vanda en starfsfólk skólans hefur einnig sinnt ráðgjöf í skólum á suðvesturhorni landsins.
Í bréfinu kemur fram að í öðrum grunnskólum hefur verklag Brúarskóla um einveruherbergi verið innleitt en því ekki fylgt neitt eftirlit um hvort að það sé gert rétt og við hvaða aðstæður barnið eigi að fara þangað og með hverjum.
„Þetta er eitthvað sem virðist verða til, og á það er bent í bréfinu, sem viðbrögð við þeim vanda sem grunnskóli án aðgreiningar leiðir af sér. Nýlegur úrskurður ráðuneytisins um mál nemanda, sem hefur verið í fréttum, ber að mínum dómi með sér að ráðuneytið viti ekki nákvæmlega hvað er verið að gera í skólunum og hvernig er verið að nota þessi nýju úrræði,“ segir Skúli og að það sé ekki nóg að ráðuneytið segi að það megi ekki nota þessi úrræði, það verði að útskýra það betur.
Þetta er eitthvað sem virðist verða til, og á það er bent í bréfinu, sem viðbrögð við þeim vanda sem grunnskóli án aðgreiningar leiðir af sér.
Til dæmis sé það nefnt í bréfinu að fortakslaust bann við einveruherbergjum myndi þýða miklar breytingar fyrir verklag í Brúarskóla því þau mættu heldur ekki nýta úrræðið lengur.
En þessi úrræði hafa ekki einungis verið notuð í þeim skólum sem voru heimsóttir því eins og hefur verið fjallað um í Fréttablaðinu þá eru þau notuð í einhverri mynd í fleiri grunnskólum í Reykjavík samkvæmt ráðleggingum farteyma Reykjavíkurborgar.
„Þessi aðferðarfræði hefur verið tekin upp í öðrum skólum en Brúarskóla og það sem embætti umboðsmanns hefur helst áhyggjur af er að það sé gert án þess að það sé rætt, mótuð stefna og án þess þau sem fást við þetta í grunnskólunum séu með þjálfun til þess og faglega kunnáttu svo og viti hvað má og hvað ekki samkvæmt lögum.“
Útilokar ekki fleiri heimsóknir
Spurður hvort að það verði nú tekið hlé á málinu þar til að svar berst frá ráðherra segir Skúli að embættið haldi áfram að fylgjast með málinu og að hann útiloki ekki að umboðsmaður fari í fleiri heimsóknir eða óski frekari gagna.
„Sérstaklega ef það koma upp ábendingar um einstök mál þá á útiloka ég ekki fleiri heimsóknir. Þá er hugsanlegt að ítarlegra álit og greining á lagalegri stöðu málsins komi frá embættinu. Það fer tíma og vinna í slíka álitsgjöf og embættið er enn ekki búið að fá það á hreint hver fjárveitingin verður á næsta ári. Við erum með takmarkaða burði til að vinna að öllum þeim verkefnum með þeim ítarlega hætti sem við myndum vilja en það er fullt tilefni til að reifa enn betur þann ramma sem er utan um þessi mál og útskýra að þessi einveruherbergi falla illa að gildandi reglum sem gera í raun ráð fyrir annars konar viðbrögðum við óæskilegri hegðun nemenda,“ segir Skúli.
Stærri umræða um skóla án aðgreiningar
Hann segir að auðvitað verði að fara varlega í þessum málum og leita skilnings á þeim aðstæðum sem aðstæðum sem skólarnir séu að reyna leysa.
Í viðtölum við skólanna og kennara kemur í grunninn fram að þau telja sig vera úrræðalitla og stundum nánast ráðþrota í málefnum einstakra barna.
Allt þetta tengist svo, eins og bent er á í bréfinu og fleiri hafa bent á eins og umboðsmaður barna, stærri umræðu um skóla án aðgreiningar og rétt barna til að vera í skóla. Því eins og kemur fram í bréfinu þá eru þeir nemendur sem hafa verið beittir þessu úrræði oft með einhvers konar sérþarfir eða greiningar.
„Í viðtölum við skólanna og kennara kemur í grunninn fram að þau telja sig vera úrræðalitla og stundum nánast ráðþrota í málefnum einstakra barna. Það er skólaskylda þannig skólunum ber skylda til að sinna þessum nemendum og þetta er þá orðin snúin staða þegar barn á rétt á því að sækja skóla og skólanum skylda til að veita honum kennslu en telur sig samt ekki geta gert það. Boltinn er núna hjá ráðherra og tilefni til að bregðast við þegar það er búið að benda á að það er ákveðin óvissa og vandi á þessu sviði.“