Fjórir eru inniliggjandi á legudeildum Landspítalns með COVID19 og 461 eru í eftirliti á COVID göngudeild þar af 41 barn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum.

Níu starfsmenn eru í einangrun, 15 í sóttkví A og í vinnusóttkví eru nú 242. Þetta kemur fram í tilkynningu frá spítalanum.

Í tilkynningunni segir að tveir starfsmenn spítalans hafi greinst með COVID í gær auk eins sjúklings sem greindist við innlögn á spítalann.

Umfangsmikil rakning hafi leitt til þes að tveir sjúklingar og níu starfsmenn hafi verið settir í sóttkví A og ellefu starfsmenn í vinnusóttkví C.

Í tilkynningu frá spítalnum er verulegum áhyggjum lýst af þessum smitum inni á spítalanum. Veiran hafi náð mikilli útbreiðslu og tugir smitaðra utan sóttkvíar við greiningu.

Brýnt er fyrir starfsfólki spítalans að fara í skimun ef þeir finna fyrir einkennum.

Smitaðir flokkaðir með litakóðun

Fram kemur í tilkynningu frá spítalanum að starfsfólk COVID-göngudeildar beiti tvenns konar flokkun við mat á áhættu smitaðra einstaklinga á að veikjast alvarlega af völdum COVID-19.

Annars vegar er svoköllaðri litakóðun einkenna þar sem grænn litur táknar fremur væg einkenni, gulur litur miðlungssvæsin einkenni og rauður litur svæsin einkenni. Hafa ber í huga að einkenni geta versnað mjög hratt þannig að einstaklingur semfær græna litakóðun getur skyndilega orðið gulur eða jafnvel rauður síðar sama dag.

Hins vegar er áhætta einstaklinga flokkuð byggt á aldri og undirliggjandi sjúkdómum í lága, meðal og mikla áhættu. Við mat á einstaklingum með kórónuveirusmit er notast við báðar þessar flokkanir. Þannig getur einstaklingur sem flokkast grænn vegna einkenna engu að síður verið í mikilli hættu á að veikjast alvarlega vegna undirliggjandi áhættuþátta í hæsta flokki.

Uppfært sunnudag kl. 13.15: Upphaflega stóð í fréttinni að inniliggjandi sjúklingur hefði greinst með COVID-19. Samkvæmt leiðréttingu frá spítalanum smitaðist viðkomandi úti í samfélaginu og greindist við innlögn á spítalann. Fréttin hefur verið uppfærð á grundvelli þessara upplýsinga.