Hlut­falls­lega fleiri inn­flytj­endur eru starfandi hér á landi en inn­lendir. Skóla­sókn þeirra í leik­skóla, fram­halds­skóla og há­skóla er þó að jafnaði lægri en skóla­sókn inn­lendra. Mestur er munurinn í fram­halds­skóla. Í sér­hefti fé­lags­vísa um inn­flytj­endur birtir Hag­stofa Ís­lands í fyrsta sinn sér­staka um­fjöllun um fé­lags­lega vel­ferð inn­flytj­enda. Horft var tíu ár aftur í tímann og til dagsins í dag.

Verri fjár­hags­staða en gott gengi að vinnumarkaði

Hlut­fall inn­flytj­enda hér á landi hefur aldrei verið hærra en á síðasta ári þegar það var 12.6 prósent mann­fjöldans. Niður­stöður um­fjöllunar Hag­stofunnar benda til þess að inn­flytj­endur hafi gott að­gengi að ís­lenskum vinnu­markaði, séu upp til hópa aðilar að stéttar­fé­lagi og búi við á­þekk um­hverfis­leg gæði og öryggi í sínu nær­um­hverfi og inn­lendir í­búar. 

Hins vegar mæti þeir hindrunum við að sækja sér menntun, fái síður störf við hæfi, búa við þrengri hús­næðis­kost og hafi að hluta til verri fjár­hags­stöðu en inn­lendir í­búar. 

Sam­kvæmt um­fjöllun Hag­stofu Ís­lands eru inn­flytj­endur sem koma hingað til lands fjöl­breyttur hópur sem kemur hingað af ýmsum á­stæðum. Menntun, vinna, vegna fjöl­skyldu tengsla eða flótti frá heima­högunum, svo lítið sé nefnt. Hlut­fall inn­flytj­enda á Ís­landi er nú orðið á­þekkt því sem þekkist á hinum Norður­löndunum en margt bendir til þess að hópurinn sé frá­brugðinn inn­flytj­endum í grann­ríkjunum. 

Lægri fæðingar­tíðni 

Til að mynda eru nær allir annarrar kyn­slóðar inn­flytj­endur hér­lendis á aldrinum 0-17 ára og hlut­fall þeirra lægra hér en á flestum hinum löndunum. Það sem einnig ein­kennir inn­flytj­endur hér á landi er að flestir þeirra eru karlar á vinnu­aldri sem hafa dvalið hér í stuttan tíma. 

Eins er fæðingar­tíðni meðal inn­flytj­enda lægri en meðal inn­lendra íbúa. Flestir inn­flytj­endur eiga rætur sínar að rekja til landa þar sem heilsa, menntun og efna­hags­á­stand er svipað og á Ís­landi. 

Sem fyrr segir benda niðurstöður til þess að inn­flytj­endur hafi gott að­gengi að ís­lenskum vinnu­markaði, en tölur frá 2017 benda til þess að hlut­falls­lega séu fleiri inn­flytj­endur starfandi en inn­lendir. Þó at­vinnu­þátt­taka inn­flytj­enda sé mikil sýna niður­stöðurnar að þeir vinni síður störf sem hæfa þeirra menntun en inn­lendir. 


Skóla­sókn lægri 

Skólasókn inn­flytj­enda í leik­skóla, fram­halds­skóla og há­skóla er að jafnaði lægri en inn­lendra. Mestur er munurinn í fram­halds­skóla, en hlut­falls­lega færri inn­flytj­endur en inn­lendir byrja í fram­halds­skóla og skóla­sókn þeirra lækkar meira fyrir hvert aldurs­ár. Ef horft er til 2017 má sjá að nærri allir inn­lendir á 16. aldurs­ári sækja fram­halds­skóla, en átta af hverjum 10 inn­flytj­endum. 

Á 19. aldurs­ári sóttu um sjö af hverjum 10 inn­lendum í­búum fram­halds­skóla, en að­eins um tveir af hverjum 10 inn­flytj­endum. Endur­tekning þessa mynsturs á árunum 2008 til 2017 gefur vís­bendingu um að brott­hvarf úr fram­halds­skóla sé al­gengara meðal inn­flytj­enda en inn­lendra. 

Flestir inn­flytj­endur sem sækja fram­halds­skóla hafa dvalist hér á landi í meira en níu ár.  Al­gengara að inn­flytj­endur séu á leigu­markaði.  Al­gengara er að inn­flytj­endur séu á leigu­markaði, en þó mælist ekki mark­tækur munur á byrði hús­næðis­kostnaðar eftir bakgrunni.

„Mögu­lega er þetta til marks um að inn­flytj­endur sníði sér stakk eftir vexti, þar sem niður­stöðurnar sýna einnig að hærra hlut­fall inn­flytj­enda en inn­lendra búi þröngt. Í nýjustu til­tæku tölum frá árinu 2016 verður breyting hér á og mark­tækur munur mælist á byrði hús­næðis­kostnaðar eftir bak­grunni. Það ár er hærra hlut­fall inn­flytj­enda sem býr við í­þyngjandi hús­næðis­kostnað en inn­lendir,“ að því sem fram kemur í um­fjöllun Hag­stofunnar.  

Markmiðið að draga upp heildstæða mynd af stöðu innflytjenda

Þá sýna niðurstöður að hlut­falls­lega færri inn­flytj­endur séu með háar heildar­tekjur, en niður­stöður sýna að árið 2017 var mið­gildi heildar­tekna inn­flytj­enda 4.9 milljónir króna á ári en 5.2 milljónir króna hjá inn­lendum.  Inn­flytj­endur eiga einnig að jafnaði minni eignir og í krónum talið er sá munur meiri en á heildartekjumeftir bak­grunni.  

Mark­mið sér­heftisins var að draga upp heildstæða mynd af stöðu inn­flytj­enda hér á landi. Í sér­heftinu var fé­lags­leg vel­ferð þeirra í brenni­depli og er þetta í fyrsta sinn sem Hag­stofa Ís­lands gefur út svo yfir­grips­mikið efni um stöðu inn­flytj­enda hér á landi.