„Það er búin að vera metaðsókn í íslenskunám í haust,“ segir Hjalti Ómarsson, framkvæmdastjóri Retor fræðslu, íslenskuskóla fyrir innflytjendur.

Fram kom í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins nýverið að nærri fjögur þúsund Pólverjar séu á atvinnuleysisskrá á Íslandi. Var þá rætt við pólska konu sem segist stöðugt sækja um vinnu en það gangi erfiðlega að sækja um þar sem hún tali ekki reiprennandi íslensku.

Fram kom í viðtali við Anetu Matuszewsku, skólastjóra Retor fræðslu, í fyrra að nauðsynlegt væri að móta stefnu um hvaða tungumál innflytjendur á Íslandi eigi að tala og að skorið hefði verið niður í framlögum til íslenskukennslu, þrátt fyrir fjölgun innflytjenda. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði við Stöð 2 í nóvember í fyrra að hún hefði fullan hug á að gera betur. „Það kom ekkert út úr því. Við teljum alveg eins líklegt að framlögin komi til með að lækka frekar en hitt,“ segir Hjalti.

„Við lendum iðulega á milli þegar kemur að athygli og aðstoð frá stjórnvöldum. Við höfum aldrei fengið skýrar leiðbeiningar, til dæmis um hvort það sé grímuskylda eða ekki.“

Um leið og samkomubannið var sett á í vor fóru þau af stað með fjarnám. „Við fórum strax af stað með vinnu við að finna besta forritið, læra á það, kenna kennurunum á það og svo fá nemendurna með okkur í lið við að nota það. Strax þá hætti rúmlega helmingur nemendanna við að byrja á námskeiði. Í apríl snerist þetta við og annar hópur sem var spenntur að prófa.“

Frá því í byrjun október hefur aðeins verið boðið upp á fjarnám og verður þannig fram á næsta ár. „Þetta gekk svo vel í vor að áður en tveggja metra reglan var sett á aftur vorum við búin að færa allt yfir í fjarnám.“ Aneta segir að fjarnám verði gert að varanlegum valkosti. „Retor Online hefur verið hugmynd hjá okkur í 10 ár. Við höfum alltaf ætlað okkur að þróa hugmyndafræði Retor yfir á fjölbreytt fjarkennsluform. Í mjög stuttu máli þá hefðum við hreinlega aldrei haft tíma og tækifæri til þess að þróa kennsluleiðina án COVID,“ segir hún.

Hjalti segir mikla áherslu lagða á að halda þeim sem eru án atvinnu virkum. „Þetta er önnur kreppan sem við förum í gegnum og vitum hvaða hagnýtu námskeið hjálpa fólki að vera tilbúið til vinnu þegar ástandið lagast.“