Innflytjendur eru með lægri laun en innfæddir en þó eru þeir ekki óánægðari með þau en innfæddir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem kom út í dag og fjallar um innflytjendur og stöðu þeirra á vinnumarkaði í Covid-kreppunni.
Þar kemur enn fremur fram að konur af erlendu bergi brotnar voru með lægri tekjur en erlendir karlar en munur á launum kynjanna var þó minni en á meðal innfæddra. Starfsreynsla hafði marktæk jákvæð áhrif á tekjur innflytjenda en auk þess höfðu innflytjendur sem störfuðu sem sérfræðingar eða tæknar hærri tekjur en aðrir innflytjendur. Hins vegar höfðu iðnaðarmenn í röðum innflytjenda eða þeir sem störfuðu við þjónustu marktækt lægri tekjur en aðrir innflytjendur. Einnig þeir sem störfuðu í sjávarútvegi en því var öfugt farið meðal innfæddra .Þá höfðu innflytjendur sem bjuggu einir, á Akureyri eða höfuðborgarsvæðinu, marktækt lægri tekjur.
Í skýrslunni eru sex þættir teknir til skoðunar, það er ánægja með laun, atvinnuöryggi, úrval atvinnu, möguleikar til eigin atvinnurekstrar og uppgefin laun og hamingja. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar stóðu innflytjendur aðeins jafnfætis innfæddum að einu leyti og það var ánægja með laun. Að öðru leyti stóðu þeir verr og verst hvað atvinnuöryggi varðaði.
Fimmtán prósent þjóðarinnar
Fram kemur í skýrslunni að á milli áranna 2016/2017 og 2020 hafi komið fram vísbendingar um að staða innflytjenda hafi almennt orðið verri á vinnumarkaði, mest hvað varðaði atvinnuöryggi. Ýmis önnur búsetuskilyrði höfðu líka versnað og þá helst varðandi framfærslu og ýmsa þjónustu. Nokkur höfðu batnað að mati innflytjenda og helst hvað varðaði leiguíbúðir, vegakerfið og nettengingar.
Innflytjendur voru samkvæmt mannfjöldatölur Hagstofu Íslands 15 prósent í janúar árið 2021 en voru aðeins 1,9 prósent í janúar árið 1996. Á þeim tíma tífaldaðist því fjöldi þeirra. Árið 2018 störfuðu flestir innflytjenda í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar (27%), næst flestir í framleiðslu (18%) og í þriðja sæti voru störf hjá hinu opinbera (13%). Þær brreytingar höfðu orðið árið 2020 að hlutfallslega flestir innflytjendur störfuðu í framleiðslu (20%), einkennandi greinum ferðaþjónustunnar (20%) og opinberri þjónustu (18%) og þeim fjölgaði mest hjá hinu opinbera milli áranna 2018 og 2020 af þeim atvinnugreinum sem sjónum var beint að. Þeim fækkaði í flestum öðrum atvinnugreinum, mest í ferðaþjónustu.
Möguleikar til atvinnureksturs minni
Þá kemur fram að í júlí 2022 var atvinnuleysi innfæddra orðið áþekkt því sem það hafði verið í júlí 2018. Atvinnuleysi innflytjenda var enn þá nokkru hærra, nema á Vesturlandi þar sem það var nærri til jafns því sem var í júlí 2018.
Í skýrslunni segir einnig að möguleikar innflytjenda til að ráðast í eigin atvinnurekstur árið 2020 voru rýrari en innfæddra.
„Þeir innflytjendur sem unnu mikið samkvæmt starfshlutfalli virtust hafa almennt færri tækifæri til að hefja atvinnurekstur en aðrir innflytjendur. Einnig virtist það vinna gegn þeim að þessu leyti ef þeir voru einstæðir foreldrar. Hins vegar jók starfsreynsla möguleikana á að ráðast í eigin atvinnurekstur, sem og tryggð við atvinnurekendur, tekjur, búseta á Akureyri eða stúdentspróf eða próf í iðngrein,“ segir í skýrslunni.
Margt fleira kemur fram í skýrslunni eins og að einstæð foreldri af erlendum uppruna virtust vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði og að innflytjendur sem búa í fjölmennari samfélögum stóðu yfirleitt betur á vinnumarkaði árið 2020 en innflytjendur í fámennari samfélögum.
Greining skýrslunnar byggir á skoðanakönnun þar sem rúmlega 16.000 manns tóku þátt árin 2016, 2017 og Covid-árið 2020. Rannsóknina í heild sinni má finna hér á vef Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.