Aldrei hafa verið fleiri inn­flytj­endur á Ís­landi en í fyrra. Sam­kvæmt nýjum tölum Hag­stofunnar voru í byrjun árs 2021 alls 57.126 inn­flytj­endur á Ís­landi, sem voru 15,5 prósent mann­fjöldans.

Fram kemur á vef Hag­stofunnar að það sé fjölgun frá í fyrra þegar þeir voru 15,2 prósent lands­manna eða alls 55.354 og að þannig haldi fjölgun inn­flytj­enda á­fram en frá árinu 2012 hefur þeim fjölgað úr því að vera átta prósent lands­manna í 15,5 prósent. Inn­flytj­endum af annarri kyn­slóð fjölgaði einnig á milli ára, voru 5.684 í fyrra en eru nú 6.117.

Saman­lagt er fyrsta og önnur kyn­slóð inn­flytj­enda 17,1 prósent af mann­fjöldanum og hefur það hlut­fall aldrei verið hærra. Ein­stak­lingum með er­lendan bak­grunn, öðrum en inn­flytj­endum, fjölgaði einnig lítil­lega á milli ára og eru nú 7,1 prósent mann­fjöldans.

Saman­lagt er fyrsta og önnur kyn­slóð inn­flytj­enda 17,1 prósent af mann­fjöldanum.
Fréttablaðið/Ernir

Pól­verjar fjöl­mennastir inn­flytj­enda

Fram kemur í greiningum Hag­stofunnar að Pól­verjar séu lang­fjöl­mennasti hópur inn­flytj­enda hér á landi en við upp­haf árs voru 20.520 inn­flytj­endur frá Pól­landi eða 35,9 prósent allra inn­flytj­enda.

Þar á eftir koma ein­staklingar frá Litháen (5,7%) og Filipps­eyjum (3,7%).

Pólskir karlar eru 37,9 prósent allra karl­kyns inn­flytj­enda eða 11.871 af 31.339. Litháískir karlar eru næst fjöl­mennastir (6,4%) og síðan koma karlar með upp­runa frá Rúmeníu (4,6%). Pólskar konur eru 33,5% prósent kven­kyns inn­flytj­enda, næst á eftir þeim eru konur frá Filipps­eyjum (5,6%) og þá konur frá Litháen (4,9%).

27,7% íbúa á Suður­nesjum inn­flytj­endur

Hinn 1. janúar síðast­liðinn bjuggu 40.943 fyrstu og annarrar kyn­slóðar inn­flytj­endur á höfuð­borgar­svæðinu eða 64,7 prósent allra inn­flytj­enda á landinu. Hlut­fall inn­flytj­enda af mann­fjölda var mest á Suður­nesjum en þar voru 27,7 prósent inn­flytj­endur af fyrstu eða annarri kyn­slóð. Næst­hæst er hlut­fallið á Vest­fjörðum þar sem 20,5 prósent mann­fjöldans voru inn­flytj­endur og börn þeirra. Lægst er hlut­fallið á Norður­landi vestra en þar voru 9,5 prósent mann­fjöldans inn­flytj­endur og börn þeirra.

Færri fengu ís­lenskt ríkis­fang árið 2020

Í fyrra fengu 395 ein­staklingar ís­lenskan ríkis­borgara­rétt og er það sam­kvæmt greiningu Hag­stofunnar nokkur fækkun frá fyrra ári þegar 437 ein­staklingar fengu ís­lenskt ríkis­fang. Af þeim 395 ein­stak­lingum sem fengu ís­lenskt ríkis­fang höfðu lang­flestir áður verið með pólskt ríkis­fang eða 134 og næst­flestir verið með ríkis­fang frá Taí­landi (19).Af þeim voru 227 konur og 168 karl­menn.

Inn­flytjandi er ein­stak­lingur sem er fæddur er­lendis og á for­eldra, afa og ömmur sem öll eru fædd er­lendis. Inn­flytj­endur af annarri kyn­slóð eru ein­staklingar sem fæddir eru á Ís­landi og eiga for­eldra sem báðir eru inn­flytj­endur. Fólk er talið hafa er­lendan bak­grunn ef annað for­eldrið er er­lent. Ein­stak­lingur sem fæddist er­lendis en á for­eldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa er­lendan bak­grunn.