Ríkisstjórn Boris Johnson hóf í gær brottflutning hælisleitenda til Rúanda í umdeildri áætlun sem hefur verið harðlega gagnrýnd.

Áætlunin snýst um að senda flóttamenn með flugi til Rúanda á meðan umsókn þeirra um hæli er tekin fyrir. Verði umsóknin samþykkt fá þeir hæli í Rúanda.

Stefanía Dórudóttir endurskoðandi, búsett í Bretlandi, segir bresku ríkisstjórnina reyna að gera málefni hælisleitenda að pólitísku þrætuepli.

„Það er þetta móralska sem situr ansi þungt í fólki,“ segir Stefanía.

Enska kirkjan skrifaði opið bréf þar sem erkibiskupar kalla áætlunina siðlausa og skammarlega fyrir bresku þjóðina.

Þá er Karl Bretaprins sagður hafa lýst henni í einkasamtali sem „skelfilegri.“.

Spurð um hvort umræðan sé harðvítug segir Stefanía: „Ég myndi frekar segja að það séu sumir í pólitíkinni sem gera mikið mál úr þessu en í raun vita allir að Bretland tekur á móti miklu færri flóttamönnum en nokkurt annað Evrópuland. Innflytjendavandinn er eiginlega ekki lengur forsíðufrétt.“