Fjöldi skráðra skot­vopna hefur verið mikið til um­ræðu í kjöl­far skot­á­rásarinnar á Blöndu­ósi. Í dag eru um 87 þúsund skráð skot­vopn á 36 þúsund ein­stak­linga.

Rann­veig Þóris­dóttir, sviðs­stjóri þjónustu­sviðs Ríkis­lög­reglu­stjóra segir að það sé klár aukning og með henni þurfi að auka eftir­lit. Hún hefur kallað eftir því að heimildir sem skil­greina hvaða vopn megi flytja inn verði þrengdar aftur.

„Það er klár­lega fjölgun og því ber að fylgja eftir með auknu eftir­liti og passa upp á að öryggi sé fylgt eftir og að varsla sé rétt,“ segir Rann­veig um stöðu mála.

Hún segir að aukning á sjálf­virkum skot­vopnum vera á­hyggju­efni.

„Sjálf­virk skot­vopn og hálf­sjálf­virk vopn eru flutt inn á grund­velli söfnunar­leyfis og það hefur síðast­liðinn fimm-sex ár verið heimilað í auknu mæli. Það hafa verið þröngar skil­greiningar hvaða vopn megi flytja inn. Þær hafa verið að­eins víkkaðar út en við höfum kallað eftir því að þær verði þrengdar aftur og að það verði sett mjög þröng skil­yrði fyrir inn­flutningi á slíkum vopn,“ segir Rann­veig.

En eru öll vopn sem eru flutt inn á grund­velli söfnunar­leyfis virk?

„Megin­reglan er að þau eru virk.“

Hér má sjá brot úr viðtalinu við Rannveigu, en fréttin í heild sinni verður send út á Fréttavaktinni sem hefst klukkan 18:30 í kvöld.