Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tengt nokkur innbrot við myndbirtingar úr fríum á samfélagsmiðlum. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að fólk sé beðið um að fara varlega í að birta slíkar myndir þar sem innbrotsþjófar geti verið að fylgjast með.

Samkvæmt lögreglu hefur verið töluvert um innbrot og þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu undanfarið og full ástæða er til að minna fólk á að vera á varðbergi. Meðal annars er um að ræða þjófnaði á reiðhjólum, rafmagnshlaupahjólum og vespum, auk þess sem nokkuð hefur verið um innbrot í bæði bíla, heimili, geymslur og á byggingarsvæði.

Láti nágranna vita

Fólk er því hvatt til að geyma reiðhjól og vespur innandyra, ef það hefur tök á, og umráðamenn ökutækja er minntir á að hafa ekki hluti í augsýn, sem kunna að freista þjófa. Viðbúið er að hinir illa fengnu hlutir séu boðnir til kaups og því nauðsynlegt að hafa varan á. Lögreglan ítrekar jafnframt að fólk láti vita um grunsamlegar mannaferðir, taki myndir af viðkomandi ef slíkt er mögulegt og að það skrifi líka hjá sérbílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í umhverfi þess.

Lögreglan vill einnig minna á mikilvægi þess að ganga tryggilega frá heimilum sínum þegar það er að heiman í lengri eða skemmri tíma og ekki er úr vegi að tilkynna nágrönnum um slíkt, en nágrannavarsla getur oft á tíðum skipt sköpum þegar kemur að því að koma í veg fyrir innbrot eða upplýsa þau.