Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást við tilkynningu um innbrot í ökutæki og heimahús í nótt, ásamt því að handtaka fjóra ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Skömmu eftir þrjú í nótt var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í ökutæki. Lögreglan mætti á staðinn og handtók einn aðila, sem var vistaður í fangaklefa.

Rétt fyrir miðnætti var tilkynnt um annað innbrot, en það var í heimahús.

Upp úr þrjú í sinnti ökumaður ekki stöðvunarmerkjum lögreglu fyrr en eftir nokkra stund. Ökumaður var handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum.

Um hálfellefu var ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og rúmlega ellefu og rétt fyrir miðnætti voru tveir aðrir ökumenn handteknir, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis.

Um klukkan átta í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp í austurborginni, en enginn slasaðist.