Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást við árás á dyravörð á veitingahúsi og innbroti á heimili í miðborginni í gær. Hún stöðvaði líka átta ökumenn sem voru grunaðir um að aka undir áhrifum, ásamt öðru. Alls voru 70 mál skráð milli fimm í gær og fimm í nótt og þrír vistaðir í fangageymslu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um líkamsárás á veitingahúsi í miðborginni skömmu fyrir eitt í nótt. Maður í annarlegu ástandi var handtekinn, grunaður um að hafa ráðist á dyravörð. Hann var vistaður í fangageymslu.

Rétt fyrir hálffimm í gær var tilkynnt um innbrot og þjófnað á heimili í miðborginni. Húsráðandi hafði ekki verið heima síðastliðna viku en þegar heim var komið sá hann að það hafði verið farið inn í íbúðina og verðmætum stolið. Maður var handtekinn skömmu eftir miðnætti grunaður um innbrotið og hann vistaður í fangageymslu lögreglu.

Átta ökumenn sem voru stöðvaðir eru grunaðir um akstur undir áhrifum. Einn þeirra hefur aldrei öðlast ökuréttindi og hefur ítrekað verið tekinn próflaus. Farþegi hans er grunaður um vörslu fíkniefna. Einn ökumannanna var handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum lyfja. Læknir mat hann óökuhæfan og eftir sýnatöku var hann sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Annar réttindalaus ökumaður var tekinn skömmu fyrir tíu, en hann hefur ítrekað gerst sekur um sama brot.

Höfð voru afskipti af manni í bifreið í Grafarvogi klukkan hálftíu. Hann var kærður fyrir vörslu fíkniefna og lyklar bifreiðar hans haldlagðir.

Um ellefu var tilkynnt að tvær rúður hefðu verið brotnar í bifreið sem stóð á bílastæði í Hafnarfirði. Ekki er vitað um gerandann.

Bifreið var stöðvuð á Suðurlandsvegi skömmu eftir hálftíu eftir hraðamælingu, en hún var á 143 km hraða þar sem hámarkshraðinn er 90.

Rétt eftir fimm festist sendibíll í undirgöngum við Reykjanesbraut í Garðabæ, þar sem bifreiðin var of há. Dráttarbifreið aðstoðaði við að losa hana.