Alls greindust níu einstaklingar með kórónaveiruna innanlands í gær en um er að ræða fjölgun milli daga. Af þeim sem greindust voru þrír utan sóttkvíar. Fjórir greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun en hinir voru með einkenni.

Einstaklingum með virkt smit fjölgar um fimm milli daga og eru nú 147 í einangrun með virkt smit. Í sóttkví eru nú 232 en þeim fækkar milli daga. Ríflega 950 sýni voru tekin innanlands í gær sem er svipaður fjöldi og daginn þar áður.

Þá greindust sjö smit við landamæraskimun en af þeim sem greindust voru fjórir með virkt smit. Beðið er mótefnamælingar úr hinum sýnunum. Í skimunarsóttkví eru nú 1541 en þeim fjölgar um rúmlega 400 milli daga. Rúmlega 550 sýni voru tekin á landamærunum.

Inniliggjandi á sjúkrahúsi eru nú 23 einstaklingar en enginn er þar á gjörgæslu. Frá upphafi faraldursins hafa 29 látist.

Bólusetningar hafnar

Bólusetningar hófust í gær þar sem fjórir starfsmenn Landspítala voru þeir fyrstu til að fá bóluefni Pfizer og BioNTech. Gert er ráð fyrir að fimm til 6 þúsund manns verði bólusettir á næstu dögum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að mögulega verði hægt að fara í tilslakanir þegar fleiri hafa verið bólusettir en tíu manna samkomubann er nú á landinu öllu. Hann ítrekaði þó mikilvægi einstaklingsbundna sóttvarna.

Fréttin verður uppfærð.