„Innan­lands­flugið er nánast gagns­laust eftir að Icelandair tók við af Air Iceland Express,“ segir Þór­oddur Bjarna­son, prófessor í fé­lags­fræði, á Face­book síðu sinni. Hann lenti í því að innan­lands­fluginu hans frá Akur­eyri til Reykja­víkur var flýtt um 25 mínútur en hann fékk einungis að vita það 10 mínútum eftir að flug­vélin fór í loftið.

Þór­oddur greinir frá þessu á Face­book síðu sinni, þar segist hann hafa ætlað að fljúga suður með móður sinni. Þau áttu bókað flug klukkan 13:20 en Icelandair flýtti fluginu til 12:45. „Þau voru svo al­menni­leg að senda okkur SMS um breytinguna tíu mínútum EFTIR að vélin fór í loftið,“ segir Þór­oddur í færslunni.

Þór­oddi og móður hans var fundið sæti í næsta flugi á eftir því sem þau höfðu misst af, sem var tíma­sett klukkan 16:50. „En á heima­síðu ISAVIA var auð­vitað komin þá þegar komin til­kynning um að 16:50 vélinni hefði verið seinkað til 18:00,“ segir Þór­oddur.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Þór­oddur ekki hafa fengið skýringu fyrir því að fluginu hafi verið flýtt fyrr en hann mætti á völlinn. „Þau bara ypptu öxlum uppi á flug­velli og sögðu að það hefði senni­lega verið bilun ein­hvers staðar,“ segir hann.

„Ég veit að þetta er engin ill­mennska hjá Icelandair, bara al­gjört hugsunar­leysi og aula­háttur gagn­vart innan­lands­fluginu. Veit eigin­lega ekki hvort það sé betra eða verra,“ segir Þóroddur.

Að­spurður að því hvort hann hafi fengið ein­hverjar bætur fyrir þessa seinkun segist Þóroddur eiga rétt á því. „Maður á rétt á því en ég hef aldrei staðið í svo­leiðis. Maður er svo­lítið að missa þolin­mæðina, því þetta er svo oft,“ segir hann.

„Fyrir 25 þúsund kallinn sem ég borgaði fyrir þetta flug aðra leið hefði ég væntan­lega getað keyrt báðar leiðir – verið kominn á svipuðum tíma suður og geta snattast þar um á bíl,“ segir hann í færslunni.

Þóroddur kallar eftir því að Niceair blandi sér í innan­lands­flugið.