„Innanlandsflugið er nánast gagnslaust eftir að Icelandair tók við af Air Iceland Express,“ segir Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði, á Facebook síðu sinni. Hann lenti í því að innanlandsfluginu hans frá Akureyri til Reykjavíkur var flýtt um 25 mínútur en hann fékk einungis að vita það 10 mínútum eftir að flugvélin fór í loftið.
Þóroddur greinir frá þessu á Facebook síðu sinni, þar segist hann hafa ætlað að fljúga suður með móður sinni. Þau áttu bókað flug klukkan 13:20 en Icelandair flýtti fluginu til 12:45. „Þau voru svo almennileg að senda okkur SMS um breytinguna tíu mínútum EFTIR að vélin fór í loftið,“ segir Þóroddur í færslunni.
Þóroddi og móður hans var fundið sæti í næsta flugi á eftir því sem þau höfðu misst af, sem var tímasett klukkan 16:50. „En á heimasíðu ISAVIA var auðvitað komin þá þegar komin tilkynning um að 16:50 vélinni hefði verið seinkað til 18:00,“ segir Þóroddur.
Í samtali við Fréttablaðið segir Þóroddur ekki hafa fengið skýringu fyrir því að fluginu hafi verið flýtt fyrr en hann mætti á völlinn. „Þau bara ypptu öxlum uppi á flugvelli og sögðu að það hefði sennilega verið bilun einhvers staðar,“ segir hann.
„Ég veit að þetta er engin illmennska hjá Icelandair, bara algjört hugsunarleysi og aulaháttur gagnvart innanlandsfluginu. Veit eiginlega ekki hvort það sé betra eða verra,“ segir Þóroddur.
Aðspurður að því hvort hann hafi fengið einhverjar bætur fyrir þessa seinkun segist Þóroddur eiga rétt á því. „Maður á rétt á því en ég hef aldrei staðið í svoleiðis. Maður er svolítið að missa þolinmæðina, því þetta er svo oft,“ segir hann.
„Fyrir 25 þúsund kallinn sem ég borgaði fyrir þetta flug aðra leið hefði ég væntanlega getað keyrt báðar leiðir – verið kominn á svipuðum tíma suður og geta snattast þar um á bíl,“ segir hann í færslunni.
Þóroddur kallar eftir því að Niceair blandi sér í innanlandsflugið.