Ingvi Hrafn Jóns­son, fyrr­verandi frétta­stjóri og sjón­varps­maður, ræðir dánar­að­stoð í þættinum 21 hjá Lindu Blön­dal á Hring­braut í kvöld. Bróðir Ingva, Jón Örn, þáði slíka að­stoð í Kanada þann 21. maí síðast­liðinn en hann var haldinn ó­læknandi sjúk­dómi.

„Hann taldi sig vera kominn á enda­stöð á því lífi sem hann gat hugsað sér, það lá fyrir honum og gerðist á skömmum tíma að hann ætti ekki heiman­gengt aftur og restin af lífinu yrði á ein­hvers konar stofnun þar sem hann þyrfti að­stoð starfs­fólks við allar dag­legar þarfir“, segir Ingvi meðal annars í þættinum en Hring­braut birti í kvöld brot úr við­talinu.

Leitaði samþykkis eiginkonu og sonar

Jón Örn var 82 ára þegar hann lést en hann bjó og starfaði í Kanada í fimm ára­tugi. Dánar­að­stoð hefur verið leyfð í Kanada frá árinu 2016 en í þættinum kemur fram að Jón Örn hafi leitað sam­þykkis eigin­konu sinnar og sonar og þau hafi virt val hans.

Ingvi Hrafn segir að Jón hafi fylgst vel með um­ræðunni í Kanada um dánar­að­stoð áður en hún var leyfð, en þegar á­kvörðunin lá fyrir hafi á­kveðið ferli farið í gang. „Þetta eru tvö við­töl með hálfs mánaðar milli­bili, læknir, sál­fræðingur og fé­lags­ráð­gjafi eru þar en ekki fjöl­skylda, fjöl­skyldunni kemur þetta ekkert við, þetta er bara sjúk­lingurinn einn,“ segir hann.

Ingvi Hrafn segist í fyrstu vart hafa trúað því að bróðir hans vildi deyja.

„Þetta kom svo á mig þegar mág­kona mín, Guð­rún Mjöll sagði mér þetta og ég sagði: Úlú, ertu að djóka í mér?" En nei var svarið, hann var búinn að á­kveða að deyja. „Og ég vissi ekkert um þessa lög­gjöf í Kanada eða neitt en það var farið í gegnum þetta allt með mér.“

Ingvi Hrafn segir að honum hafi fundist að hann stæði sjálfur frammi fyrir dauðanum. „ Og þetta hafði bara þessi rosalegu áhrif á mig, mér fannst eins og ég stæði bara sjálfur frammi fyrir dauðanum og ég var með þessar svaka­legu og ofsa­fengnu mar­traðir þar sem ég var við dauðans dyr.“

Í þættinum í kvöld segist Ingvi Hrafn ekki telja að stjórn­mála­menn hér á landi muni setja málið á dag­skrá. „Það kemur ekkert frum­varp á Al­þingi eftir hálft ár eða eitt ár, kannski eftir fimm ár,“ segir hann en hann er sjálfur þeirrar skoðunar að opna eigi á þessa um­ræðu hér á landi.

Ingvi Hrafn segir að hann myndi biðja um sömu sprautu og bróðir hans ef hann væri í sömu sporum og hann var í. „Ég er al­gjör­lega sann­færður núna að ef ég lenti í ein­hverju svona og ég gæti ráðið því í hausnum á mér og sagt heyrðu plís má ég fá sprautu þá myndi ég biðja um það.“

Þátturinn er á dag­skrá Hring­brautar í kvöld klukkan 21.