Þingveislu þingmanna, sem fyrirhugað var að halda næsta föstudag, þann 22. mars á Hótel Sögu, hefur verið frestað vegna verkfalls hótelstarfsfólks og starfsfólks hópbifreiðafyrirtækja sem er fyrirhuguð á föstudag. Fram kemur í tölvupósti sem sendur var á alla þingmenn, fyrr í dag, að áætlað sé að halda veisluna í maí.

Þar kemur einnig fram að þeir sem hafi nú þegar greitt fyrir veisluna geti fengið endurgreitt, en einnig sé hægt að láta greiðsluna standa þar til það skýrist hvenær veislan verður.

Fyrstu sameiginleg verkföll Eflingar og VR eru sett næsta föstudag. Þá munu starfsmenn ýmissa hótela og hópbifreiðafyrirtækja fara í eins dags verkfall. Næstu verkföll eru síðan 28. til 29. mars, í tvo daga.