„Ég hef aldrei stolið list eftir annan listamann á ævinni og myndi aldrei gera,“ segir Ingvar Þór Gylfason listamaður í samtali við Fréttablaðið, en hann hefur verið sakaður um hugmyndastuld í færslu sem Sunna Ruth Stefánsdóttir birti á Facebook síðu sinni. Færslunni hefur verið deilt 49 sinnum nú þegar þessi frétt er skrifuð.

Sunna telur upp fimm listamenn sem hún segir Ingvar herma eftir. Þar á meðal eru Lindsey Kustusch, Jimmy Law, Laura Row, Richard Young og Maria Kachinskaya.

„Verðum fyrir áhrifum frá hvort öðru“

Ingvar segist vera miður sín eftir að hafa séð færsluna á Facebook. Hann segir marga listamenn vera með svipaðan stíl og vinna með sama viðfangsefni. Honum þyki það leitt að hann skuli vera sakaður um stuld.

„Lindsay er einn af mínum uppáhalds listamönnum. Við lærum af hvort öðru og verðum fyrir áhrifum frá hvort öðru. Ég hef sjálfur verið spurður hvort það mætti mála eftir mínum myndum á námskeiðum og ég hef alltaf svarað játandi.“ segir Ingvar og bætir við að hann hafi fengið mikið af skilaboðum þar sem fólk lýsir yfir stuðningi við hann.

„Auðvitað finnst mér stíllinn hjá mér og Lindsey og mörgum öðrum listamönnum vera svipaður. Ég skoða hluti sem mér finnst flottir og ég verð fyrir miklum áhrifum frá öðrum listamönnum.“

Upprunalega ljósmyndin til vinstri, verk Ingvars fyrir miðju og verk Lindsey lengst til hægri.

Segir verkin byggð á ljósmyndum

„Myndirnar eru líkar en eru ekki eftir sama manninn eða konuna. Ég veit að ég hef málað krumma eftir ljósmynd sem Lindsey hefur málað sjálf,“ segir Ingvar og bætir við að myndin af ballerínunni, sem Sunna sakar hann um að stela frá Lauru Row, hafi verið byggð á ljósmynd.

„Þetta er fræg ljósmynd af ballerínu sem hefur verið prentuð á plaggöt og notuð út um allt. Þetta er minn útgáfa af þessari ljósmynd en það má finna alls konar myndir á netinu sem eru miklu líkari.“

Verk Ingvars til vinstri og verk Lauru Row til hægri

„Mér finnst þetta mjög erfitt og óþægilegt,“ segir Ingvar um ásakanirnar.

„Ég hef lagt mig mikið fram við að gefa til baka og rukka ekki mikið fyrir myndirnar. Ég hef oft verið spurður hvers vegna ég rukki ekki meira. Maður hefur reynt að láta þetta leiða til einhvers góðs.“

Innblástur eða höfundarréttarstuldur

Mikil umræða hefur farið af stað á samfélagsmiðlum um mörkin milli þess að vinna með innblástur og að stela hugmyndum.

„Myndirnar eru ekki alveg eins, hann er mögulega ekkert að fela það að hann máli myndir af öðrum myndum. Í LHÍ var okkur kennt að það er í lagi að stela svo lengi sem við getum breytt því og gert það að okkar eigið. En er þetta ekki bara eins og ,,hönnuðurinn” sem tók Ikea skeiðarnar, boraði nokkur göt í þær og kallaði þær maísskeiðar eða afaskeiðar eða eitthvað slíkt og seldi undir sinni hönnun. Hámarks vinna ein til tvær mínútur,“ segir Tanja Sif Hansen í athugasemd við færsluna.

Sunna segir myndina flokkast frekar undir stuld vegna þess að Ingvar nefnir ekki upprunalegu listamennina á nafn.

„Ég verð að taka undir með hinum, mér finnst þetta flokkast undir stuld en ekki innblástur, einnig nefnir hann aldrei á nafn upprunalegu listamennina og ef einhver spyr hann út í þetta er viðkomandi blokkaður eða spurningu eytt, svo það er allavega greinilega einhver feluleikur í gangi með þetta og ekki full hreinskilni.“