Ingvar Ómars­son at­vinnu­hjól­reiða­maður segir í við­tali við helgar­blað Frétta­blaðsins frá al­var­legu slysi sem hann varð fyrir þegar ferillinn var að hefjast árið 2015.

Ingvar er hand­hafi fjöl­margra Ís­lands­meistara­titla í hjól­reiðum auk þess að vera okkar fyrsti og eini at­vinnu­maður í greininni. Litlu munaði þó að endi væri bundinn á þann feril í upp­hafi hans með al­var­legu slysi í Rotter­dam. Segja má með vissu að án hjól­reiða­hjálms væri Ingvar ekki til frá­sagnar hér.

Rúmum mánuði eftir að Ingvar flutti til Rotter­dam árið 2015 til að ein­beita sér að at­vinnu­mennsku í hjól­reiðum lenti honum saman við mótor­hjól á 80 kíló­metra hraða. Ingvar kastaðist heila tuttugu metra, lenti á höfðinu og töldu sjúkra­flutninga­menn hann látinn þegar þeir komu á staðinn. Ingvar væri ekki til frá­sagnar um slysið hefði hann ekki verið með hjálm en gera þurfti tvær stórar að­gerðir á höfði hans til að forða honum frá lömun eða dauða.

En að degi slyssins ör­laga­ríka, 11. nóvember 2015:

„Ég man ekki eftir deginum sjálfum en man eftir kvöldinu á undan. Ég hafði planað að hjóla svaka­legan 120 kíló­metra hring í borginni, hálfa leið í átt að landa­mærum Belgíu. Þetta var þremur dögum eftir Evrópu­mótið og ég var kominn á glæ­nýtt götu­hjól. Þetta var fyrsti hjóla­túrinn á þessu hjóli og ég að hefja æfinga­ferlið fyrir sumarið á eftir.“

Hjóla­túrinn átti að taka um fjórar klukku­stundir og er frá­sögn Ingvars byggð á skýrslum lög­reglu enda man hann eins og fyrr segir ekkert frá deginum né slysinu sjálfu.

„Ég var kominn að einum aðal­veganna þar sem er grænt ljós og ég kem af minni vegi. Þar er bíll fyrir sem heftir út­sýnið. Ég kem öðrum megin við hann en hinum megin kemur mótor­hjól á 80 kíló­metra hraða. Öku­maður mótor­hjólsins hefur engan tíma til að bremsa og fer bara á fullri ferð á mig. Ég kastast yfir 20 metra, sem er rosa­leg vega­lengd og ég átti erfitt með að trúa henni. Ég var bara farinn yfir í næsta póst­númer,“ lýsir hann með til­þrifum.

Þyrla og sjúkra­bíll send af stað

Ingvar lenti á þjóð­veginum og lík­lega beint á höfðinu. „Ég hef verið á svona 20 kíló­metra hraða enda svo­lítið að passa mig á leið inn á aðal­veginn. Við vorum báðir jafn sekir og engum kennt um enda hafði bíllinn blokkað sjón beggja.

Þetta var greini­lega það al­var­legt að það fer af stað svo­lítið fyndinn prósess,“ segir Ingvar sem er feginn að slysið hafi orðið í Hollandi. „Þegar svona svaka­lega al­var­legt slys verður fer af stað ferli sem að­eins er notað þegar um konungs­fjöl­skylduna eða mjög al­var­leg slys er að ræða. Þá er kölluð út bæði þyrla og sjúkra­bíll og sá sem er fyrr á staðinn bregst við.“

Mynd/Úr einkasafni

Í þetta skiptið var sjúkra­bíllinn undan á vett­vang og leist sjúkra­liðunum ekki á blikuna fyrst um sinn. „Þeir horfðu á mig og voru hand­vissir um að þetta væri búið spil.“

Fékk konung­lega þjónustu

Miðað við á­verka lenti Ingvar á höfðinu enda lítið um önnur meiðsl og í raun að­eins hand­leggs­brot sem ekki var sinnt al­menni­lega fyrr en síðar.

„Það var ekki einu sinni verið að spá í því – enda ekki aðal­at­riði. Á­kveðið var að sjúkra­bíllinn sem var fyrri til flytti mig á sjúkra­húsið og þá lokar lög­reglan öllum vegum inn og út úr borginni. Þetta gera þeir fyrir konungs­fjöl­skylduna og al­var­leg slys svo ég fékk „royal treat­ment“,“ segir hann í léttum tón.

„Á meðan þetta er í gangi eru læknar spítalans mættir á neyðar­fund því sjúkra­liðunum virtist um tvo höfuð­á­verka að ræða sem vana­lega er ekki gerð að­gerð á sam­tímis. Ég var höfuð­kúpu­brotinn, auk þess sem það var blæðing bæði utan og innan á haus­kúpu,“ segir Ingvar og sýnir um 12 senti­metra langt ör á höfðinu.

„Í milli­tíðinni er hringt í kærustuna mína, sem fær af­skap­lega leiðin­legt sam­tal við komuna á spítalann, en læknirinn segir við hana: „Hann er að fara í að­gerð. Til öryggis skaltu fara og kveðja hann.“

Það var kannski ekki skrítið enda metið að ein­hverjar 10 prósent líkur væru á að ég lifði að­gerðina af.“

Er í lagi með hjólið mitt?

Eftir kveðju­stundina fór Ingvar beint í að­gerð enda mátti engan tíma missa.

„Að­gerðin gekk aug­ljós­lega glimrandi vel. Ég man svo fyrst eftir mér að borða morgun­mat, í spítala­rúmi, tveimur dögum síðar.“ Ingvar var þá löngu vaknaður en man ekki eftir sér fyrr. „Ég var á spítala í þrjár vikur en fyrstu vikuna gat ég hvorki gengið né setið. Ég átti mjög erfitt með að borða og mundi lítið. Ég þekkti fólk ekki. Það var eins og ég þekkti for­eldra mína en samt ekki. Ég átti erfitt með að segja hvar ég væri.

Ingvar segist eiga svo­lítið erfitt með að lýsa líðaninni og á­standinu fyrstu vikurnar. „Þetta er ekki svart og hvítt. Maður er svo­lítið on/off. Ég man vel eftir einu spaugi­legu at­viki, því ég hafði greini­lega nógu mikið vit á að spyrja læknana mjög fljót­lega eftir að ég vaknaði: Er í lagi með hjólið mitt? Eitt­hvað var því enn tengt í hausnum,“ segir hann í léttum tón.