Hann náði á keppninni síðastliðinn laugardag að fara á Batman-bílnum kvartmíluna á 6,548 sek með endahraðann 200,75 mílur. Það gerir hvorki meira né minna en 323 km hraða á klukkustund sem er um leið hraðamet á brautinni. „Það er skemmtilegt að ná svona áföngum eins og þessum, en þetta var eitt af markmiðum mínum,“ sagði Ingólfur í viðtali við Bílablaðið. „Næsta markmið liðsins er að fara 1/8 míluna á undir 4 sekúndum, en til þess að ná því þurfum við að fara aftur í 4:10 drif, en við settum stærra drif í bílinn til að ná 200 mílunum. Bíllinn sem Ingólfur notar er sérsmíðuð grind frá Miller Race Cars með 706 kúbiktommu Big Block Chevy vél sem er sérsmíðuð og skilar 1.700 hestöflum. „Hún snýst 7.800 snúninga og til gamans má geta þess að bíllinn fór í 78 mílur á einni sekúndu, en það eru 125 km á klukkustund,“ sagði Ingólfur að lokum.