Ingólfur Þórarinsson, eða Ingó veðurguð, segist aldrei hafa sængað hjá stúlkum á grunnskólaaldri né börnum undir 18 ára. Þá segist hann aldrei hafa heyrt sögusagnir um neitt slíkt.

Þetta sagði Ingó í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Aðalmeðferð í meiðyrðamáli Ingós gegn Sindra Þór Sigríðarssyni hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Voru saman í grunnskóla

Sindri Þór er einn þeirra fimm sem Ingó kærði vegna meintra ærumeiðanda ummæla á internetinu. Sindri lét ummælin falla á samfélagsmiðlum sumarið 2021 í kjölfar harðra ásakana sem fjöldi kvenna lét falla á hendur Ingó fyrir kynferðisbrot.

Í skýrslutöku fyrir dómi í morgun sagðist Ingó spurður ekki þekkja Sindra Þór persónulega. Þeir hafi verið saman í grunnskóla á Selfossi en ekki átt nein samskipti.

Ingó sagðist eiga kærustu í dag til tæpra tveggja ára og að þau ættu von á sínu fyrsta barni saman.

„Nei það er ekki til í mér“

Meðal ummæla sem Sindri Þór lét falla á samfélagsmiðlum á þessum tíma var: „Maður sem er svo þekktur fyrir að ríða börnum.“

Ingó sagði að sér hafi liðið hræðilega við að heyra þetta sagt og að hann teldi ummælin mjög gildishlaðin.

Þá sagði Ingó jafnframt að þar sem ásakanirnar sem birtust um hann hafi flestar verið nafnlausar og því viti hann ekkert hvaðan þær komi og að erfitt sé að tengja við þær.

Ingó hafnaði því einnig að hafa framið gróf brot líkt og nauðgun, „nei það er ekki til í mér.“

Ekki ein athugasemd

Aðspurður hvort hann hafi einhverntímann fengið athugasemdir frá starfsfólki félagsmiðstöðva segir Ingó svo ekki vera. „Ég hef ekki persónulega fengið eina einustu athugasemd.“

Ingó segir málið hafa haft áhrif á sig, atvinna hans hafi stöðvast alveg. Fyrirtæki og fólki hafi ekki þorað að bóka hann vegna möguleika á að vera harðlega gagnrýnd fyrir það að ráða „barnaríðing.“ Ingó segist skilja afstöðu þeirra vel en fullyrðir að hann sé það ekki.

Allar bókanir hafi algjörlega hætt og að hann hafi reynt að finna sér annað að gera. Þá sé tónlistarbransinn ekki endilega sá bransi sem gaman sé að vera í eftir svona mál.

Ingó segist hafa fengið ákveðna aðstoð til að halda áfram með lífið, „mér finnst það mikilvægt,“ sagði hann.

Þá segist Ingó hafa fengið stuðning frá fjölskyldu og vinum og að hann reyni að vera jákvæður. Hann vilji þó reyna að fá sínu fram með kærunni, að það megi ekki segja hvað sem er á netinu.