Aðalmeðferð í meiðyrðamáli söngvarans Ingólfs Þórarinssonar, eða Ingó veðurguðs, gegn Sindra Þór Sigríðarssyni hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Ingó segist bjartsýnn á að vinna málið í samtali við Fréttablaðið og það sama má segja um Sindra Þór.

Sindri Þór er einn þeirra fimm sem Ingó kærði vegna meintra ærumeiðanda ummæla á internetinu. Sindri lét ummælin falla á samfélagsmiðlum sumarið 2021 í kjölfar harðra ásakana sem fjöldi kvenna lét falla á hendur Ingó fyrir kynferðisbrot.

Ætlar ekki að borga Ingó krónu

Sindri Þór tjáði sig um kæruna þegar hún barst fyrir tæpu ári og sagðist ekki ætla biðjast afsökunar á neinu. Þá myndi hann ekki borga Ingó krónu vegna ummæla sinna.

Ummælin sem um ræðir eru eftirfarandi:

„Maður sem er svo þekktur fyrir að ríða börnum“

„Hvað finnst þér réttlætanlegt að fullorðinn maður nýti frægð sína og valdastöðu til að ríða mörgum börnum“

„Skemmtikraftur sem hefur stundað það síðastliðin 12-13 ár að ríða börnum“

„trallað í skítbeisikk kassagítarútgáfu af manni sem ríður börnum“

„Til að vinna örugglega unlikable keppnina þá splæsir eigandinn í barnaríðinginn.

Rígfullorðnir menn sængi hjá börnum

Sindri Þór segir í samtali við Fréttablaðið bjartsýnn á að málið fari sér í hag. Hann sé spenntur fyrir því að klára málið en á sama tíma fá tækifæri til að benda á stóra málið í þessu öllu saman, „og það stóra mál hefur í raun ekkert með Ingólf Þórarinsson að gera.

Að mínu mati er stóra málið þetta grasserandi samfélagsmein að íslensk löggjöf virðist heimila rígfullorðnum mönnum að sænga hjá börnum niður í fimmtán ára aldur algjörlega refsilaust.

Það er það sem ég hef verið að benda á og að því leytinu til er þetta mál allt saman að mínu mati það kjánalegasta. Hvernig get ég meitt æru einhvers með því að segja að hann hafi gert eitthvað sem er löglegt.“

Stendur við ummælin

Aðspurður segist Sindri Þór ekki sjá eftir neinum ummælum sem hann lét falla og að hann standi við þau öll enn í dag.

„Ef ég hefði ætlað mér að særa æru Ingólfs hefði verið auðvelt að vísa í þau mál sem raunverulega fólu í sér lögbrot. Ég ásakaði hann aldrei um það að brjóta lög.

Ég segi réttilega að þarna sé fullorðinn maður sem hafi sængað hjá börnum, sem að mínu mati vissulega gerði. Og samkvæmt íslenskri löggjöf er nákvæmlega ekkert að því, hvernig geta það verið meiðyrði?“

Málið haft mikil áhrif

Ingó segir að með kærunni vilji hann láta reyna á hvað má segja á internetinu. „Ég er aðallega að hugsa um að láta reyna á hvað má segja. Sjá hvort það megi segja hvað sem er um fólk. Það er svona grunnurinn að þessu,“ segir Ingó í samtali við Fréttablaðið. Hann segist bjartsýnn á að vinna málið.

Aðspurður hvort málið hafi haft mikil áhrif segir Ingó svo vera, sérstaklega atvinnutengt. Þá finni fjölskyldan einnig mikið fyrir þessu. Hann segist vonast til að einhver lína verði sett um hvað megi segja um fólk á internetinu.