Ingólfur Þórarins­son, betur þekktur sem Ingó veður­guð, segir ekkert til í á­sökunum um kyn­ferðis­of­beldi af hans hálfu. Hópurinn Öfgar birti nafn­lausar sögur rúm­lega tuttugu kvenna á TikTok sem lýsa kyn­ferðis­of­beldi og á­reitni sem konurnar segjast hafa lent í frá Ingólfi.

„Maður er orðinn ringlaður. Ég veit hver ég er og hvað ég hef gert og ég held að það sem er satt eigi eftir að koma í ljós“, segir Ingólfur í sam­tali við Vísi.

Meint kyn­ferðis­of­beldi Ingólfs hefur verið mikið til um­ræðu á sam­fé­lags­miðlum á borð við TikTok og Twitter í kjöl­far seinni bylgju #met­oo hreyfingarinnar sem hófst í maí.

@ofgarofgar

Jesús allir lúserar landsins mættir að fella kónginn. #öfgar #islenskt #islenskttiktok

♬ Get You The Moon - Timmies

Segist upplifa þetta sem árás

Ingólfur segist upp­lifa á­sakanirnar sem árás og segist hafa miklar á­hyggjur af sínum nánustu í tengslum við um­ræðuna.

„Þetta er farið að hafa á­hrif at­vinnu­lega og aðal­lega er þetta leiðin­legt fyrir fólkið sem þekkir mann, að þurfa að standa í þessu. Þetta er orðið svo gróft núna,“ segir hann.

Ingólfur er að sögn þegar byrjaður að leita réttar síns en ekki kemur fram hvort eða hverja hann hyggist kæra.

„Í stuttu máli verður þessu öllu svarað eftir réttum leiðum. Svona á ekki að vera hægt að gera gagn­vart ein­stak­lingi og ég á eftir að skoða vel hvað ég geri. Ég mun leita réttar míns og er byrjaður á því,“ segir Ingólfur.