Ingólfur Þórarins­son, sem betur er þekktur sem Ingó Veður­guð, segir í langri að­sendri grein sem hann birtir á Vísi í dag að á­sakanir gegn honum um of­beldi hafi gert honum erfitt fyrir að starfa sem tón­listar­maður og að hann sjái sér ekki annað fært en að láta af störfum sínum fyrir fyrir­tækið X-Mist sem hann stofnaði með vini sínum. Hann segir að í kjöl­far á­sakananna hafi verið ráðist af hörku gegn fyrir­tækinu og að hann sjái sér ekki fært að starfa lengur fyrir það.

„Auk þess að ráðast á starfs­feril minn hefur á­rásar­herinn gert mér ó­mögu­legt að reka fyrir­tækið X-mist sem ég rak á­samt góðum vini mínum. Fyrir­tækið hefur sætt slíkum á­rásum að ég sé mér ekki lengur fært að starfa við það enda hefur þessi vinur minn og fjöl­skylda hans liðið mest fyrir linnu­lausar á­rásir. Það er í raun ó­trú­legt að upp­lifa hvað sumt fólk er til­búið að ganga langt í ó­hróðri og lygum til þess að ná sínu fram. Til­gangurinn virðist helga meðalið og þá skiptir engu hvaða að­ferðum er beitt,“ segir Ingólfur í greininni.

Auk þess að ráðast á starfs­feril minn hefur á­rásar­herinn gert mér ó­mögu­legt að reka fyrir­tækið X-mist sem ég rak á­samt góðum vini mínum.

Hann segir í greininni að það sé ekki bara hann sem að hafi orðið fyrir miklum á­hrifum heldur einnig kærastan hans, sem þurfti að hætta í vinnunni, og vinir hans og fjöl­skylda séu orðin leið á því að heyra það sem Ingólfur segir ó­sannar sögur og að það sé ekki sann­gjarnt að slíkar á­sakanir bitni á sak­lausu fólki.

„Allir sem þekkja mig og mitt fólk vita að ég er ekki of­beldis­maður. Ég hef alltaf staðið með þeim sem hafa orðið fyrir ein­elti og of­beldi og getur fólk frá skóla­árum mínum vottað fyrir það. Nú hef ég setið undir marg­vis­legum ó­sannindum þar sem öllu er grautað saman og ég hef enga leið haft til þess að verja mig,“ segir Ingólfur í greininni

Fá­mennur á­rásar­her

Ingólfur segir að þau sem helst ráðist gegn honum séu ekki fjöl­mennur hópur, heldur sé hann til­tölu­lega fá­mennur, en að hann hafi skýr mark­mið og að fjöl­miðlar veiti honum mikið pláss. Þá segir hann að margir hafi haft sam­band við hann til að lýsa yfir stuðningi en að þetta sama fólk þori ekki að greina frá stuðningi sínum opin­ber­lega af ótta við hefndar­að­gerðir.

Ráðist hefur verið opin­ber­lega á þá sem ég hef giggað hjá frá því að­förin gegn mér hófst

Hann segir það sama gilda um tón­leika­haldara og við­burða­stjórn­endur sem margir vilji enn ráða hann en þori því ekki af hræðslu við þennan sama á­rásar­her.

„Er sá ótti enda á rökum reistur þar sem ráðist hefur verið opin­ber­lega á þá sem ég hef giggað hjá frá því að­förin gegn mér hófst,“ segir Ingólfur.

Getur ekki sam­þykkt svo al­var­legar á­sakanir

Ingólfur segir í­trekað í færslunni að hann gangist ekki við á­sökunum sem hafa verið bornar á hann um kyn­ferðis­of­beldi og barna­níð og að þess vegna finnist honum mikil­vægt að segja alla söguna í greininni.

„Ég er svo sannar­lega breyskur maður og hef gert mín mis­tök á löngum ferli ef­laust sýnt af mér dóna­skap og ekki komið nægjan­lega vel fram við alla en of­beldis­maður og þaðan af verra er ég ekki. Þess vegna finnst mér mikil­vægt að segja alla söguna,“ segir Ingólfur.

Hann viður­kennir að lokum að vera mis­tækur maður en segist þó standa við allt sem hann hafi gert og sagt í gegnum tíðina. Hann veltir því fram hvort að hann þurfi hrein­lega bara sætta sig við það að vera hluti af þeim hópi sem er hent undir lestina fyrir bar­áttuna og á þá væntan­lega við aðra meinta ger­endur.

Of­beldis­maður og þaðan af verra er ég ekki

„Ég get þó ekki sam­þykkt það þegar um svona al­var­legar á­sakanir er að ræða. Ég er á móti hvers­kyns of­beldi og finn til með þeim sem hafa orðið fyrir nauðgunum og kyn­ferðis­of­beldi. Eðli­legt er að berjast gegn of­beldi og kyn­ferðis­brotum og bæta kerfið okkar þannig að það hlúi sem best að þol­endum. Ég vona að hóf­stillt fólk taki yfir þessa bar­áttu og skilji að það að saka fólk um eitt­hvað sem að það hefur ekki gert mun ekki hjálpa mál­staðnum. Þegar bar­áttan er rekin af fólki sem nýtir það til að fá at­hygli eða fólki sem vill sjá blóð vinnst ekki neitt. Hverjar eru annars lausnirnar sem verið er að boða?,“ spyr hann að lokum.

Greinina er hægt að lesa í heild sinni hér.