Alls vill 31 þingmaður að sexmenningar sem tóku þátt í umræðum á Klaustri 20. nóvember segi af sér. Átján þingmenn svara ekki spurningunni. Aðeins einn þingmaður telur að sexmenningarnir þurfi ekki að segja af sér.

Fréttablaðið reyndi í gær að ná í alla þingmennina 57 sem ekki voru að drykkju á Klaustri þetta umrædda kvöld sem hefur svo sannarlega spillt og eitrað andrúmsloftið og vinnufriðinn á þingi.

Ljóst er af samtölum við þingmenn að þeir eru enn í áfalli yfir því sem kom fram í upptökunum af Klaustri. Margir hverjir töldu í raun enga iðrun að sjá á þeim sem þar voru. Reynt væri að klína aurnum á aðra þingmenn eða starfsfólk þingsins. Klausturmennirnir geri sér ekki ljóst hversu alvarlegt málið sé.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir stöðu sexmenninganna svo þrönga að þau eigi í erfiðleikum með að vinna vinnu sína á þingi.

„Við höfum séð á þingi og í þjóðfélaginu víðtæka fordæmingu á framferði þessa fólks og sú víðtæka andstaða sem hefur birst mun gera þessum þingmönnum erfitt fyrir með að ná fram sínum málum á þingi. Með öðrum orðum geta þau trauðla komið fram vilja umbjóðenda sinna sem kusu þau. Það er staðan sem þau standa frammi fyrir, þau eiga örðugt með að standa undir því sem þau voru kosin til,“ segir Eiríkur.

Athygli vekur að þingmenn skiptast í tvo hópa um hvort sama eigi yfir alla sex þingmennina að ganga eða hvort stigsmunur sé á brotum þeirra.

Margir þingmanna töldu rétt að svara ekki spurningunni heldur bíða niðurstöðu siðanefndar þingsins. Hins vegar höfðu þeir að einhverju leyti gert upp hug sinn persónulega. –