Þing­menn ríkis­stjórnar­flokkanna komu saman á fundi í Ráð­herra­bú­­staðnum klukkan 15. Boðað var til fundarins í síðustu viku að sögn þing­­flokks­­for­manna Sjálf­­stæðis­­flokks og Fram­­sóknar­flokks en til stendur að fara yfir hin ýmsu mál sem eru á borði þingsins í vetur. 
Birgir Ár­manns­son, þing­flokks­for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að sam­bæri­legur fundur hafi verið haldinn í vor og til standi að gera það reglu­lega. Að­spurður segir hann að þriðji orku­pakkinn og komandi kjara­við­ræður verði þar rædd. 

„Það verður á­reiðan­lega komið inn á þessi mál og fleiri sem eru á borðum okkar í þinginu,“ segir Birgir. Þórunn Egils­dóttir, þing­flokks­for­maður Fram­sóknar­flokks, talaði á svipuðum nótum. Þessi mál yrðu líkast til tekin fyrir, en þó á­samt öðrum. 

Bæði mál hafa verið í deiglunni undan­farið. Verka­lýðs­hreyfingar og aðilar markaðarins hafa þannig tekist á um hvernig skuli bera sig að í komandi kjara­við­ræðum en út­lit er fyrir að tölu­verð gjá verði á milli beggja fylkinga.

Þá hefur verið tekist á um þriðja orku­pakka Evrópu­sam­bandsins og hvort það eigi að inn­leiða hann hér á landi. Skiptar skoðanir eru á honum í Sjálf­stæðis­flokknum en Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, hyggst leggja fram frum­varp um inn­leiðingu hans í febrúar. Skiptar skoðanir eru þó á inn­leiðingunni innan Sjálf­stæðis­flokksins. 

Meðal þeirra sem hafa sagt að inn­leiðingin feli í sér fram­sal á full­veldi Ís­lands er Óli Björn Kára­son, þing­maður Sjálf­stæðis­manna. Að­spurður hvort að mis­jöfn af­staða Sjálf­stæðis­manna varðandi inn­leiðingu þriðja orku­pakkans verði rædd á fundinum segir hann að svo verði ef­laust. Á­samt öðrum málum. 

„Það er engin ó­eining en hins vegar eru skiptar skoðanir. Menn vilja fara vel yfir á­kveðnar spurningar sem á eftir að svara áður en menn geta tekið efnis­lega af­stöðu,“ segir Óli Björn í sam­tali við Frétta­blaðið. 

Hann eigi til að mynda eftir að fá svör við skrif­legri fyrir­spurn sem hann lagði fyrir utan­ríkis­ráð­herra. Hún sé ítar­leg og feli í sér fjór­tán spurningar. Óli segir að allt sé í eðli­legum far­vegi. 

„Það er enginn að fara á taugum.“