Ýmis hagsmunasamtök svo sem Samtökin ´78, Kvennahreyfingin, Öryrkjabandalagið og NPA-miðstöðin sendu frá sér yfirlýsingu með ýmsum kröfum í kjölfar mótmæla á Austurvelli fyrr í dag.
Þau krefjast þess að þingmennirnir sem náðust á upptöku á Klaustri segi af sér, að kjörnir fulltrúar kynni sér málefni minnihlutahópa og að allir þingmenn sitji námskeið í jafnréttisfræðslu.
Sitji tíu klukkustunda jafnréttisfræðslu
Kvennahreyfingin krefst þess að „klausturshópurinn“ segi af sér og að allir þingmenn sitji tíu klukkustunda jafnréttisfræðslu.
Ófær um að gegna trúnaðarstörfum
Öryrkjabandalagið krefst þess einnig að þingmennirnir segi af sér. Þau segja þá fyrirlitningu sem fram hafi komið í orðum þeirra á upptökunni sýna fram á að þau séu með öllu ófær um að gegn trúnaðarstörfum.
Orð geta leitt til hatursglæpa
Þá segja Samtökin ´78 að algerlega óásættanlegt sé að þingmennirnir hafi leyft sér að tala eins og þau gerðu á upptökunum.
„Samtal Alþingismanna á Klaustri lýsir djúpstæðri kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu og fötlunarfordómum sem ekki er hægt að una. Mannréttindabarátta þessara hópa, sem og annarra minnihlutahópa, tvinnast saman og fylgist að. Það er því mikilvægt að við stöndum saman gegn orðræðu eins og þeirri sem við höfum heyrt af síðustu daga. Það er grafalvarlegt þegar þingmenn viðhafa slíka fordóma, þar sem um er ræða fólk með mikil völd í samfélaginu og sem eiga m.a. að gæta hagsmuna kvenna, fólks með fötlun og hinsegin fólks. Við getum ekki treyst stjórnmálafólki sem talar svona,“ segja samtökin í yfirlýsingunni.
Þau segja slíka orðræðu geta leitt til hatursglæpa og afturfarar í réttindabaráttu minnilutahópa og skora því á bæði þingmenn og stjórnmálaflokka að samþykkja aldrei „kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu eða fötlunarfordóma. Eitruð orðræða grefur undan öryggi jaðarsettra hópa og við minnum ykkur á að ábyrgð ykkar er gífurleg.“
Fatlað fólk mætir enn miklum fordómum
Einnig er að finna kröfur frá NPA miðstöðinni í yfirlýsingunni. Þar segir að fatlað fólk mæti enn miklum fordómum í samfélaginu og það sé „depurð í hjarta okkar að sjá framkomu Alþingisfólks í garð einnar af okkar helstu baráttukonum fyrir sjálfstæðu lífi fatlaðs fólks á Íslandi, og í raun í garð okkar allra. Þetta lýsir því viðhorfi sem margt fatlað fólk þarf að upplifa daglega úti í þjóðfélaginu. Ef mark ætti að taka á orðum formanns Miðflokksins gæti þetta viðhorf verið algengt á Alþingi. Með því viðhorfi myndi Alþingisfólk óneitanlega tapa trausti fatlaðs fólks að miklu leyti.“
Þar segir að alþingisfólk verði að átta sig á því að þau hafi skyldum að gegna og það sé þeirra krafa að þau hafi þekkingu á mannréttindasamningum og lögum og „temji sér að virða kjósendur sína alla, minnihlutahópa sem aðra.“
Þau skora því á alla kjörna fulltrúa að setja sig betur inn í baráttuna og segja þau að alþingismenn gætu sýnt vilja í verki með því að þrýsta á dómsmálaráðherra að fullgilda valfrjálsan viðauka við Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.