Þingmenn Miðflokksins heyrast fara ófögrum orðum um Lilju Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í upptöku sem Stundin hefur undir höndum. Þar má heyra þingmennina Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Braga Sveinsson og Bergþór Ólasön meðal annars segja Lilju hafa dregið þá á asnaeyrum og stinga upp á að hjólað verði í „helvítis tíkina.“

Nokkrir þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hafa setið í eldlínunni í dag vegna ýmissa ummæla sem hópurinn lét falla á bar í miðbæ Reykjavíkur fyrir stuttu. Samræðurnar fóru um víðan völl og fóru þingmennirnir ófögrum orðum um fjölda þingmanna. Þá gerði hópurinn einnig grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrum varaþingkonu Bjartrar framtíðar.

Í umræddri upptöku má einnig heyra Bergþór, Sigmund Davíð og Gunnar Braga hneykslast á vali Lilju á aðstoðarmanni í menntamálaráðuneytinu, en hún valdi nýnlega Jón Pétur Zimsen, skólastjóra í stöðuna. Þá segja þeir Lilju „engan kynþokka hafa.“

„Hjólum í helvítis tíkina“

Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð eru fyrrum flokksbræður Lilju í Framsóknarflokknum og virðast erfa það við hana að hafa ekki sagt skilið við flokkinn og gengið til liðs við Miðflokkinn á sínum tíma.

„Ef að Lilja hefði einhvern áhuga á að tengjast við okkur þá hefði hún hringt í sumar,“ segir Gunnar Bragi. „Auðvitað“ og „alveg augljóst“ svara þá Sigmundur Davíð og Bergþór.

Gunnar Bragi heldur þá áfram og hrópar: „Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina! Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“ og Sigmundur Davíð segist skilja sjónarmiðið vel.

Segir Lilju hafa dregið sig á asnaeyrum

„Ég get algjörlega sjálfum mér um kennt,“ segir Sigmundur, sem vísar eflaust til þess þegar Lilja var skipuð utanríkisráðherra árið 2016 eftir að Panamaskjölin komust í hámæli. Sigmundur var þá flokksformaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, en sagði síðar af sér. Sigmundur virðist erfa þetta við Lilju og bætir við: „Ég er búinn að láta þessa konu yrða á mig aftur og aftur,“ segir hann.

Bergþór Ólason grípur þá inn í og segir: „Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún, sem ég hef ekki fengið að ríða,“ en virðist vísa til Lilju. „Og hún hefur teygt ykkur miklu lengur. Ég er bara nýbúinn að kynnast henni. Þegar við hittumst í skötuveislunni fyrir nokkrum árum þá vissi ég ekki að hún væri til.“

Sigmundur Davíð virðist vera sammála ummælum Bergþórs og segir „Það er alveg rétt hjá þér,“ segir Sigmundur Davíð. „Henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann.“ 

„Who the fuck is that bitch?“ segir þá einn úr hópnum um Lilju og annar segir „Fuck that bitch“. „Þú getur riðið henni, skilurðu,“ segir þá Bergþór.

Fréttaflutningur af innihaldi upptökunnar hefur valdið töluverðum usla og hafa ummæli þingmannana um hinar ýmsu þingkonur, og menn, vakið harða gagnrýni.