Ástralski þingmaðurinn Fraser Anning liggur undir ámæli fyrir að hafa nýtt sér hryðjuverkin í Nýja Sjálandi í nótt í pólitískum tilgangi. Anning sagði í yfirlýsingu eftir ódæðin, þar sem 49 létust í skotárásum á moskur í landinu, að verknaðurinn væri afsprengi innflytjendastefnu stjórnvalda.

Fjölmargir hafa fordæmt ummæli þingmannsins. Hann sagði meðal annars að vaxandi ótti væri á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu vegna fjölgunar múslima. Það sýndu árásirnar, sem rekja mætti til innflytjendastefnu stjórnvalda.

„Ég er algjörlega á móti hvers kyns ofbeldi í samfélaginu okkar, og ég fordæmi verknað byssumannsins,“ sagði hann í tilkynningu. „Þó aldrei sé hægt að réttlæta ofbeldisverk, er það sem upp úr stendur vaxandi ótti, bæði á Nýja-Sjálandi og Ástralíu, við nærveru múslima.“

Hann sagði að vinstri menn og fjölmiðlar myndu kenna byssulöggjöf eða þjóðræknum einstaklingum um glæpinn, en að það væri þvættingur. Vandamálið væri innflytjendastefnan sem heimilað hefði öfgasinnuðum múslimum að setjast að í landinu. Hann sagði að ódæðin væru Islam, eins og það leggur sig, að kenna.

Anning sagði í niðurlagi yfirlýsingar sinnar að þeir sem aðhylltust ofbeldisfull trúarbrögð sem hvetji til ofbeldisverka ættu ekki að verða hissa þegar einhver svaraði þeim í sömu mynt.

Forsætisráðherrann Scott Morrison er á meðal þeirra sem fordæmt hefur ummæli Anning. Hann kallaði þau „viðbjóðsleg“. Ekkert rými væri fyrir skoðanir sem þessar í Ástralíu eða á ástralska þinginu. Fleiri hafa tekið undir þau sjónarmið.