Allt ætlaði um koll að keyra þar til þingfundi var frestað eftir að þingmenn Miðflokksins boðuðu málþóf, verði ekki kosið um lagafrumvarp Þorsteins Sæmundssonar á Alþingi í dag. Frumvarpið kveður á um að húsnæðisverð verði ekki reiknað með í útreikningi vísitölu neysluverðs. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði málflutninginn ótrúlegan.

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis lagði til nefndarálit með tillögu um að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar. Þingmenn Miðflokksins túlka þetta sem svik á samkomulagi flokkanna á Alþingi um þinglok. Samið var um að hver og einn stjórnarandstöðuflokkur fengi að ljúka einu máli í lok þings. 

Mismunandi túlkanir á þinglokasamningi

„Nú hefur mér borist til eyrna að stjórnarliðar ætli ekki að standa við það samkomulag sem var gert hér við þinglok um að mál Miðflokksins kæmist til atkvæðagreiðslu hér í þingsal, heldur er hér á dagskrá frávísunartillaga til að koma í veg fyrir að málið fái eðlilega afgreiðslu,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, í ræðu sinni á Alþingi.

Katrín Jakobsdóttir sagði vísun til ríkisstjórnar vera efnisleg málalok. „Það er alveg ótrúlegt að heyra þennan málflutning[...]. Það var rætt um milli formanna flokkanna að hér myndi eitt mál frá hverjum þingflokki vera afgreitt hér í sal. Það var ljóst að það kynni að koma fram málsmeðferðartillögur um að vísa mál til ríkisstjórnarinnar og það er fullnaðarafgreiðsla. Það gengur ekki að háttvirtir þingmenn leyfi sér að koma hérna upp og tala um svik þegar þetta var það sem var samið um,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Segir Sigurð Inga fara með þvælu

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, sagði í ræðu sinni að málið sem Miðflokkurinn vilji ljúka fyrir þingi hafi aldrei verið rætt fyrir en á síðustu metrum í þinginu. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, tók í sama streng og Sigurður Ingi og sagði Miðflokkinn hafa skipt um mál í miðri á. Gunnar Bragi brást ókvæða við. „Það er hreint með ólíkindum að hlusta á þvæluna sem kemur frá hæstvirtum sveitarstjórnarráðherra, og beinlínis ósannindin sem koma úr munni hans. En þau hef ég svo sem heyrt áður, það er ekki í fyrsta sinn sem hann vinnur slíkt með þessum hætti,“ sagði Gunnar Bragi.

Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, tók undir skilning þingmanna Miðflokksins á þinglokasamkomulaginu, og biðlaði til Steingríms J. Sigfússonar, forseta þingsins, að gera hlé á fundi Alþingis svo að þingflokksformenn gætu rætt niðurstöðu mála. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tóku í sama streng og Steingrímur varð við beiðni þeirra að mælendaskrá lokinni.