Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, mun stíga til hliðar sem forstjóri Íslandspósts. Hann hefur starfað sem forstjóri þar frá því 2004 og greindi frá þessu á aðalfundi Íslandspósts sem nú fer fram. Ekki liggur fyrir hvenær Ingimundur mun formlega hætta eða nýr maður taka við.

Ingimundur sagði á fundinum í dag að miklar breytingar væru óhjákvæmilega framundan á fyrirkomulagi póstþjónustunnar með gildistöku nýrra laga um póstþjónustu, sem áformað er að taki gildi í ársbyrjun næsta árs. Mikilvægt væri að nýr forstjóri fengi svigrúm til þess að koma að móta og undirbúning nauðsynlegra breytinga. 

Í yfirlýsingu frá Ingimundi, sem send var á fjölmiðla rétt í þessu, kemur fram að það hafi verið áhugavert, gefandi og krefjandi að koma að rekstri Íslandspósts undanfarin fjórtán ár. Á ýmsu hafi gengið í rekstri félagsins á þessu tímabili, einkum eftir hrunið og í kjölfar þess hafi bréfum fækkað verulega. 

„Á sama tíma hefur verið unnið að viðamiklum breytingum á rekstri félagsins, sem fylgt hafa miklum samdrætti í bréfasendingum á sama tíma og pökkum og þyngri sendingum hefur fjölgað umtalsvert. Þá hafi veruleg hagræðing náðst með margvíslegum umbótum í rekstri félagsins sem og fækkun póstafgreiðslna og dreifingarstöðva jafnhliða endurbótum á allri aðstöðu fyrir viðskiptavini og starfmenn fyrirtækisins,“ segir í yfirlýsingunni. 

Ingimundur segir að honum sé sé þakklæti efst í huga fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að vinna hjá traustu og öflugu fyrirtæki með ótal starfstöðvar. „ Það er ómetanlegt að hafa átt kost á að vinna með kraftmiklu og frábæru fólki, sem hefur lagt sig fram um að vinna af vandvirkni og heilindum og skila framúrskarandi starfi. 

Ég er þakklátur fyrir það sem áunnist hefur og þó að enn hafi ekki tekist að ná fram fullri viðurkenningu á því að stærsti viðskiptavinur Íslandspósts greiði fyrir þá þjónustu, sem fyrir hann er sinnt, þá vænti ég þess og treysti að með nýjum póstlögum verði vel fyrir því séð.  Ég þakka samstarfsfólki ómetanleg samskipti og framúrskarandi samstarf og sömuleiðis þakka ég stjórnarmönnum félagsins í áranna rás fyrir góða samvinnu, traust og stuðning,“ segir í yfirlýsingunni að lokum. 

Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um stöðu Íslandspósts síðasta árið. Undanfarin ár hefur ÍSP tapað háum fjárhæðum sagt ástæðuna vera sendingar hingað til lands frá Kína en áætla má að Pósturinn hafi niðurgreitt sendingar hingað til lands fyrir á fjórða milljarð á árunum 2013-18. Samhliða því hefur fyrirtækið fjárfest umtalsvert í samkeppnisrekstri en árangur þar hefur ekki nægt til að standa undir fjárfestingunum.

Fyrir jól fór fyrirtækið fram á neyðarlán frá ríkinu til að bregðast við lausafjárþurrð ella blasi gjaldþrot við. Ætla má að þessi staða hefði komið fyrr upp ef ekki hefði komið til óvænts hagnaðar af einkaréttarbréfum árin 2016 og 2017 en þau ár skilaði einkarétturinn tæpum milljarði í afgang. Þær tekjur voru nýttar til að mæta tapi af samkeppnishliðinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.