Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum utanríkisráðherra, segir í færslu á Facebook-síðu sinni ekki geta orða bundist yfir texta á skilti Umhverfisstofnunar við Gullfoss um baráttukonuna Sigríði Tómasdóttur í Brattholti. Hún segist hafa séð Facebook-vin hneyklast á textanum og ákveðið því að skoða hann betur sjálf þegar hún gerði sér leið að Gullfossi nýlega.

„ Það er margt vont við þennan texta en það versta er að þarna er ekki orð um baráttu Sigríðar gegn virkjun Gullfoss og hvernig hún opnaði augu almennings fyrir gildi og fegurð Gullfoss og mikilvægi hans og annarra ósnortinna náttúruperla. Ég get heldur ekki ímyndað mér annað en að útlendingar sem lesa þennan texta hljóti að velta fyrir sér hvað þeim komi þessi kona við sem vann sér það helst til frægðar að fylgja ferðamönnum að fossinum!," skrifar Ingibjörg.

Hún kallar eftir því að Umhverfisstofnun bæti skiltið um Sigríði og geri öllum ljóst fyrir hvað hún stóð.

Á Dagskrávef skáta geta fróðleiksfúsar lesið stutta færslu um Sigríði og baráttu hennar. Textinn er svo hljóðandi.

Án staðfestu og fórnfúsrar baráttu Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti er óvíst við ættum Gullfoss sem ósnortna þjóðargersemi í dag. Sigríður fæddist í Brattholti og bjó þar til dauðadags. Bærinn var í alfaraleið þeirra sem komu til að skoða Gullfoss, þannig að stundum var gestkvæmt. Systrunum í Brattholti þótti vænt um fossinn og voru oft leiðsögumenn gestanna.

Um aldamótin 1900 fóru útlendingar að sækjast eftir umráðum yfir fallvötnum hér á landi. Englendingur nokkur falaðist eftir Gullfossi, sem þá var í eigu Brattholts, og bauð 50 þúsund krónur, en það mun hafa jafngilt fimmtíuföldu brunabótamati íbúðarhússins í Brattholti. Hér var því til nokkurs að vinna. "Ég sel ekki vin minn," sagði Tómas í Brattholti, faðir Sigríðar. Síðar féll Gullfoss þó í hendur erlends hlutafélags, er tók fossinn á leigu í því skyni að virkja hann.

Þá hófst barátta Sigríðar fyrir friðun fossins. Andstæðingar hennar voru margir valdamestu og ríkustu menn landsins, en hún lét ekki bugast og fékk föður sinn til að neita að taka við árgjaldi fyrir fossinn. Hún lagði nótt við dag, fór margar ferðir til Reykjavíkur yfir torleiði og óbrúuð vötn , gekk á fund embættismanna og talaði máli sínu. Allt kom fyrir ekki, dómur féll Brattholtsfjölskyldunni í óhag.

Þá hótaði Sigríður því, að við fyrstu skóflustungu, sem tekin yrði til virkjunar myndi hún kasta sér í fossinn. Til þess kom ekki, því áform um virkjunarframkvæmdir runnu út í sandinn og leigusamningurinn féll úr gildi.

Í dag er Gullfoss ein mesta náttúruperla okkar Íslendinga og það sem við sýnum útlendingum gjarnan er þeir koma til landsins. Þökk sé staðfestu og þrautseigju Sigríðar í Brattholti.