Ljóst er að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, mun ekki starfa áfram sem forstjóri ODHIR – Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE. Ingibjörg hefur gegnt embættinu undanfarin þrjú ár og í viðtali við Fréttablaðið í maílok kom fram að nýr þriggja ára samningur væri nánast formsatriði.

Embættið sem Ingibjörg hefur gegnt er eitt af fjórum mikilvægum embættum innan ÖSE. Miklar deilur ríktu fyrir þremur árum um skiptingu þessara embætta milli fjögurra valdablokka aðildarríkja en að endingu náðist sátt um fjóra fulltrúa, þar á meðal Ingibjörgu.

Í frétt RÚV um málið kom fram að fulltrúar Aserbaísjan og Tadsíkistan mótmæltu áframhaldandi veru Frakkans Harlem Désir sem forstjóra ÖSE. Þá mótmælti fulltrúi Tadsíkistan einnig áframhaldandi setu Ingibjargar og undir það tók fulltrúi Tyrkja. Ástæðan fyrir því er sögð vera ósætti við að Ingibjörg hefði ekki beitt sér fyrir því að útiloka frjáls félagasamtök frá fundum stofnunarinnar.

Svissneski fjölmiðillinn CH Media heldur því fram að þegar mótmæli við áframhaldandi skipun Ingibjargar hafi komið fram hafi Frakkar, Kanadabúar, Norðmenn og Íslendingar ákveðið að styðja ekki áframhaldandi setu Svisslendingsins Thomas Greminger sem framkvæmdastjóra ÖSE.

Í kjölfarið hafi verið ákveðið að auglýsa embættin fjögur opin til umsóknar.