Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður og umboðsmaður framboðslista Pírata í síðustu kosningum, hefur kært Inga Tryggvason, oddvita yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, til lögreglu fyrir kosningasvindl.

Ingi segist ekki hafa fengið kæruna í sínar hendur, né vita um hvað hún snýst. „Ég hef ekkert um þetta að segja, ég hef bara séð eitthvað af þessu í fjölmiðlum,“ sagði Ingi í samtali við Fréttablaðið í gærkvöld og vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Ingi vildi ekki tjá sig um það hvort hann ætlaði að greiða sektina sem yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hlaut vegna óinnsiglaðra atkvæða eftir að talningu lauk í alþingiskosningunum 25. september síðastliðinn.

„Ég hef ekki greitt sektina,“ segir Ingi og segist ekki hafa fengið ítrekun frá lögreglu vegna málsins.